133. löggjafarþing — 63. fundur,  31. jan. 2007.

ákvæði íslenskra laga um hreinsun á strandstað.

[13:52]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegi forseti. Mér finnst hv. þingmenn tala ansi glannalega um þetta mál, ég verð að segja eins og er. Ég minni þá á að lög eru sett á Alþingi og þingmenn hafa náttúrlega sömu möguleika og ráðherrar til að flytja breytingartillögur við gildandi lög. Ábyrgðin er því víða. [Hlátur í þingsal.]

Hins vegar er alveg ljóst að við settum hér lög árið 2004 um varnir gegn mengun hafs og stranda. Það er mat okkar ráðherranna, og ekkert eigi að fara á milli mála með það að ekki eigi að gefa undir fótinn með það eða gefa afslátt af þeirri ábyrgð sem hvílir á eigendum skipsins. Ef hv. þingmenn halda einhverju öðru fram er það mjög athyglisvert. Það er enginn afsláttur af okkar hálfu gefinn hvað það varðar.

Hins vegar að sjálfsögðu (Gripið fram í.) — þið skuluð bara, hv. þingmenn, lesa ræðurnar sem voru fluttar hér áðan. (Forseti hringir.) Ábyrgðin er auðvitað hjá þeim sem reka skipin og láta þau sigla hér við strendurnar. Ef fram fer einhver glæfrasigling, eins og hér er talað um, þá er það mjög alvarlegt. Að sjálfsögðu á að taka á því.

Skipafélögin, það verður að segja hverja sögu eins og er, eru og hafa verið að reyna að fría sig ábyrgð, m.a. með því að skrá skipin annars staðar en hér, hafa áhafnir skráðar á þessi skip sem eru ekki Íslendingar þannig að þar liggur mikil ábyrgð. Að sjálfsögðu munum við fara yfir þetta mál. Við erum að því.

Í samgönguráðuneytinu er unnið að því í góðu samstarfi við umhverfisráðuneytið að endurskoða þá löggjöf sem þarf að endurskoða. En aðalatriðið er að í landinu gilda lög um varnir gegn mengun hafs og stranda og það er á grundvelli þeirrar löggjafar sem við eigum að sækja rétt okkar (Forseti hringir.) en ekki gefa eitthvað annað í skyn. (Forseti hringir.)