133. löggjafarþing — 63. fundur,  31. jan. 2007.

fyrirspurnir á dagskrá.

[14:02]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það er oft þannig á mannamótum að þeir eru skammaðir sem eru mættir því að ekki er hægt að ná til þeirra sem ekki eru viðstaddir. Það á kannski við í þessu tilviki.

Hér eru a.m.k. mættir tveir ráðherrar og mér skilst að sá hinn þriðji sé einhvers staðar í húsinu eða ínáanlegur þannig að þá vantar níu ráðherra ef ég hef þessa tölu rétta. Mér finnast það ekki vera miklar heimtur því að við erum að tala um að ráðherrum er skylt að svara fyrirspurnum. Þeim er skylt að vera hér og þeim er skylt að svara fyrirspurnum þingmanna. Miðað við þá áætlun sem liggur fyrir um starfslok þingsins eru u.þ.b. sex vikur eftir af þinginu og þar af er eitthvað af nefndadögum þannig að fyrirspurnadagar eru sennilega ekki margir í þessari áætlun, tveir til fjórir, einhvers staðar á þessu bili og um 70 fyrirspurnum er enn ósvarað, virðulegi forseti.

Mér þætti ágætt, virðulegi forseti, ef við fengjum kannski einhverjar betri skýringar á þessum litlu heimtum hæstv. ráðherra en hér hafa komið fram og í annan stað að við yrðum upplýst um áætlaðan fjölda fyrirspurnadaga fram að starfslokum í vor. Ég held að það væri gott að þetta lægi fyrir því að það er alveg fráleitt að 1/4 ráðherra sé mættur þegar verið er að leggja fram fyrirspurnir, jafnvel þó að íþróttaáhuginn sé mikill.