133. löggjafarþing — 63. fundur,  31. jan. 2007.

fyrirspurnir á dagskrá.

[14:07]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Það er ástæða til að brýna hæstv. forseta til þess að tryggja það að áferðin á þingstörfum fram á vor verði með þeim hætti að við getum staðið keik og talið hana vera okkur til sóma. Það er alveg ljóst að það er m.a. í verkahring hæstv. forseta að tryggja það að ríkisstjórnin setji fram einhvers konar forgangsröðun mála hérna fyrir vorið og það er ekki seinna vænna að sú forgangsröðun liggi fyrir. Það gerir hún ekki í dag þannig að það verður að tryggja það að þinginu sé stjórnað hérna með sæmilegri meðvitund um það hver áherslumál ríkisstjórnarinnar í þessum efnum munu verða en, eins og ég segi, það liggur ekki fyrir í dag.

Síðan finnst mér líka mikilvægt að hæstv. forseti átti sig á því að ráðherrar draga hér lappirnar aftur og aftur í því að skila svörum við skriflegum fyrirspurnum. Skemmst er að minnast þeirrar rimmu sem hér stóð vegna Ríkisútvarpsmálsins fyrir skemmstu þegar hæstv. menntamálaráðherra dró fram úr hófi að koma með svar við brýnni fyrirspurn í því máli. Nú vill svo til að sú sem hér stendur á enn inni tvö skrifleg svör frá hæstv. menntamálaráðherra sem hún samkvæmt þingsköpum hefur 10 virka daga til að svara. Hér er um að ræða fyrirspurnir sem varða tónlistarskóla og tónlistarnám í landinu, fyrirspurnir sem lagðar voru fram og dreift var í sölum Alþingis 23. nóvember. Enn eru ekki komin svör. Það er í verkahring forseta Alþingis að halda utan um það að þingstörfin geti gengið með þeim hætti sem þingsköp gera ráð fyrir og í þessu tilliti þarf að brýna ráðherrana, og svipan sem við höfum á ráðherra hvað þetta varðar er forseti þingsins. Við sem hér tölum treystum því að þessum skilaboðum héðan verði komið til skila til þeirra ráðherra sem í hlut eiga, hér verði reynt að halda uppi þingstörfum af dampi og að það verði þá í verkahring ráðherranna, ekki síður en almennra þingmanna, að greiða fyrir þingstörfum.