133. löggjafarþing — 63. fundur,  31. jan. 2007.

fyrirspurnir á dagskrá.

[14:10]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Vegna orða sem féllu hér áðan frá einum af þeim sem sitja í forsætisnefnd og gegna á stundum því starfi að stjórna hér fundum, hv. þm. Birgi Ármannssyni, vildi ég leiðrétta hann hvað það varðar að það er rétt að það er ekki mætingarskylda hjá þingmönnum í fyrirspurnatíma.

Hins vegar átta ég mig ekki á því hvernig fyrirspurnatímar geta farið fram ef ráðherrar túlka þetta á þann veg að þeim sé ekki skylt að mæta, eins og mátti ráða af orðum hv. þingmanns. Ráðherrum er skylt að svara fyrirspurnum. Þess vegna finnast mér þær röksemdir sem hér hafa komið fram af hálfu þeirra sem hafa tekið til máls, röksemdir í þá veru að vegna fjarveru þingmanna hafi ekki verið hægt að koma að fleiri fyrirspurnum, mega sín lítils. Vel má vera að það sé ekki hægt en þá væri líka ágætt að við yrðum upplýst um það ef einhverjir ráðherrar hafa ekki komist á vettvang eða ekki þurft að koma vegna þess að fyrirspyrjendur voru ekki tiltækir á staðnum þegar átti að bera fyrirspurnirnar upp. Það væri ágætt að vita þetta því að það er mikilvægt í þessu samhengi að hér bendi ekki hver á annan. Við verðum einfaldlega að horfa á þá staðreynd að það er einungis 1/4 af ráðherranna mættur til þess að svara fyrirspurnum. Það er staðreynd og sú ásýnd þingsins er algerlega óásættanleg, virðulegi forseti.