133. löggjafarþing — 63. fundur,  31. jan. 2007.

lagabreytingar sem fullgilding Árósasamningsins hefði í för með sér.

203. mál
[14:13]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Árósasamningurinn er einn af merkilegustu alþjóðasamningum á okkar tímum. Hann sameinar mannréttindi og umhverfismál, leggur sérstaka áherslu á rétt almennings til heilbrigðs umhverfis, leggur áherslu á að tryggja verndun þess og að leiða verði í lög sjálfbæra þróun. Hann leggur áherslu á rétt almennings til þátttöku í ákvörðunum um umhverfismál, um aðgang hans að upplýsingum og réttlátri málsmeðferð.

Saga þessa máls hér á landi er einkennileg og lýsir undarlegum ágreiningi eða a.m.k. töfum innan stjórnkerfisins og að því er virðist milli stjórnarflokkanna. Það er kunnara en frá þurfi að segja þeim sem eitthvað hafa fylgst með að nú eru sex ár síðan þáverandi utanríkisráðherra, Halldór Ásgrímsson, lagði fram frumvarp um staðfestingu Árósasamningsins, sem gerður var 1998 og við skrifuðum undir þá, og það kom fram að að mati umhverfisráðuneytisins kallaði fullgilding samningsins ekki á neinar lagabreytingar hér á landi. Þessu var svo breytt í október sama ár, 2001, í ljósi álits réttarfarsnefndar á málinu að svo væri ekki. Utanríkisráðuneytið átti þá að halda áfram athugunum og hafa samráð við umhverfisráðuneytið og dóms- og kirkjumálaráðuneytið samkvæmt því sem sami Halldór Ásgrímsson sagði í svari við fyrirspurn Ólafar Guðnýjar Valdimarsdóttur, þáverandi hv. þingmanns, um þetta. Sama ár í desember var málið komið í athugun hjá þessum ráðuneytum öllum, þrjú ráðuneyti höfðu þetta mál til athugunar. Málið var enn til athugunar í utanríkisráðuneytinu 2. febrúar árið 2002 og kæmi í ljós á næstu vikum hver afdrif þess yrðu. Ári og átta dögum síðar sagði þáverandi utanríkisráðherra að samningurinn biði væntanlega umfjöllunar næstu ríkisstjórnar sem tæki við völdum eftir kosningar. Það var 2003 en umhverfisráðherra nýrrar ríkisstjórnar vatt sér ekki í það fyrr en í febrúar 2005 að skipa nefnd frá öllum ráðuneytum sem áttu að kanna málið. Nokkrum sinnum hefur verið spurt um árangur þeirrar nefndar og í síðasta svari umhverfisráðherra, sem var sá sem sat á undan þeim sem nú er og séu þeir allir hæstvirtir, kom fram að árangurs væri að vænta að loknu sumri 2006, sem er liðið fyrir nokkru, og þá yrði árangur þessa nefndarstarfs tryggður.

Nú bíð ég eftir því, forseti, að hinn ágæti núverandi hæstv. umhverfisráðherra skýri okkur frá því að þessi nefnd hafi lokið störfum og að nú verði flutt frumvarp um staðfestingu þessa samnings.