133. löggjafarþing — 63. fundur,  31. jan. 2007.

lagabreytingar sem fullgilding Árósasamningsins hefði í för með sér.

203. mál
[14:21]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Þetta er hið versta mál fyrir ríkisstjórnina því að hún hefur gerst sek um ákveðið sleifarlag í þessum efnum sem hv. þm. Mörður Árnason lýsti í ræðu sinni. Ég held að krafan til hæstv. umhverfisráðherra sé auðvitað sú að hún opinberi þá skýrslu sem við erum að heyra núna að búið sé að kynna í ríkisstjórninni, skýrslu nefndar sem hóf störf í febrúar 2005.

Í öðru lagi ber að geta þess við þessa umræðu að ríkisstjórnin hefur meðvitað á undanförnum árum þrengt rétt fólks til að gera athugasemdir við stjórnsýsluna, þ.e. þrengt aðkomu fólks og girt fyrir möguleika einstaklinga á því að eiga aðild að málum. Búið er að þrengja skilyrði til gjafsóknar fyrir einstaklinga sem eru beinlínis sett til að koma í veg fyrir að einstaklingar geti höfðað mál gegn stjórnvöldum í erfiðum umhverfisverndarmálum. Sama má segja um þessa skilgreiningu á umhverfsverndarsamtökum sem hefur verið mótmælt. (Forseti hringir.) Þarna hefur ríkisstjórnin sýnt sleifarlag og það er þakkarvert að hv. þm. Mörður Árnason skuli hreyfa þessu máli hér.