133. löggjafarþing — 63. fundur,  31. jan. 2007.

lagabreytingar sem fullgilding Árósasamningsins hefði í för með sér.

203. mál
[14:22]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Í ljós kemur að nefndin lauk störfum nógu snemma til að skila áliti sínu 28. september árið 2006 áður en þing kom saman. Ég man ekki hvenær fyrirspurn minni var útbýtt í þinginu, ég hygg að að hafi verið í síðari hluta október og umhverfisráðherra var reiðubúinn að svara henni, reyndar ekki í dag heldur fyrir viku þegar ég átti óhægt með að hlýða á svarið. Mér þykir sem, eigum við ekki að orða það kurteislega, hæstv. ráðherra hafi kannski ekki legið mikið á að svara þessari fyrirspurn eða gera uppvíst um niðurstöðu nefndarinnar.

Um skýrsluna vil ég segja að ég fer fram á það við hæstv. umhverfisráðherra að hún afhendi mér skýrsluna og reikna með því að hún liggi í hólfinu mínu á neðri hæðinni fyrir vikulokin. Skýrslan virðist vera hin merkasta og það sem við höfum fengið að heyra úr henni boðar auðvitað merkilegar réttarbætur, miklar réttarbætur fyrir almenning í umhverfismálum á Íslandi. Lokaspurningin er auðvitað sú: Hvernig líður undirbúningi lagabreytinganna og hvenær væntir hæstv. umhverfisráðherra þess að annað frumvarp komi frá utanríkisráðherra, eins og árið 2001, um staðfestingu Árósasamningsins?