133. löggjafarþing — 63. fundur,  31. jan. 2007.

lagabreytingar sem fullgilding Árósasamningsins hefði í för með sér.

203. mál
[14:24]
Hlusta

umhverfisráðherra (Jónína Bjartmarz) (F):

Herra forseti. Hvað varðar aðgang að þeirri skýrslu sem skilað var til umhverfisráðherra 28. september sl. þá veit ég ekki betur en að hún liggi inni á heimasíðu ráðuneytisins. Því fer fjarri að þessari skýrslu eða vitneskju um hana eða hvað hún inniheldur hafi verið haldið frá einum eða neinum sem sýnir því máli áhuga.

Það er rétt að halda til haga niðurstöðu þessarar skýrslu. Hlutverk nefndarinnar var að greina efnið og jafnframt hvaða opinberar leyfisveitingar falla undir Árósasamninginn. Það er listað upp og flokkað eftir ráðuneytum. Fljótlega eftir að skýrslan kom út var hún kynnt í ríkisstjórninni. Í nefndinni sátu fulltrúar þeirra ráðuneyta sem ég hef þegar talið upp og það er eðlilegt að á vettvangi hvers og eins þeirra ráðuneyta sé málið skoðað nánar út frá verksviði þess.

Eins og ég gat um í upphafi var meginniðurstaða nefndarinnar sú varðandi fyrstu tvær stoðir Árósasamningsins, sem varða aðgang að upplýsingum um umhverfismál og réttinn til að taka þátt í ákvarðanatöku, að kveðið sé á fullnægjandi hátt á um réttindi og skyldur sem að þessum tveimur stoðum lúta. Það er einungis þriðja stoðin sem stendur út af borðinu. Er til athugunar í viðkomandi ráðuneytum og umhverfisráðuneytinu hvora leiðina sé vert að fara, annars vegar stjórnsýsluleiðina en í henni felst að breyta þarf ákvæðum þeirra laga sem skýrslan telur upp og heyra undir þau ráðuneyti sem ég hef þegar talið upp, eða dómstólaleiðina sem er hin leiðin sem nefndin (Forseti hringir.) bendir á og á að tryggja þeim aðgang að dómstólunum sem taldir eru eiga þessa hagsmuni.