133. löggjafarþing — 63. fundur,  31. jan. 2007.

lagabreytingar sem fullgilding Árósasamningsins hefði í för með sér.

203. mál
[14:27]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf) (um fundarstjórn):

Forseti. Ég fer fram á það að forseti rannsaki hvernig á því stendur að fyrirspurn um störf nefndar sem lögð er fram í október er ekki svarað fyrr en í janúar. Við skulum segja um miðjan janúar til að taka tillit til þess að vika leið frá því að hæstv. umhverfisráðherra var tilbúin með svarið og þangað til hún svaraði en þannig stóð á að nefndin hafði þegar lokið störfum þegar fyrirspurnin var lögð fram. Ég tel að forseti þurfi að kanna hvort um sé að ræða einhver vandræði í starfsemi ráðuneytisins, hjá skrifstofu ráðherra eða hvort um það sé að ræða að ráðherra hafi ekki getað verið viðstödd þá miðvikudaga sem um er að ræða frá því í október og til janúarmánaðar þess sem nú er að ljúka. Eða er einhver önnur ástæða? Mér finnst satt að segja að hér sé komið dæmi um mikinn vandræðagang af því tagi sem við ræddum áðan í umræðu um fundarstjórn forseta. Mér finnst alveg fráleitt að hæstv. umhverfisráðherra skuli ekki hafa getað svarað þessu fyrr þegar nefndin hafði lokið störfum áður en fyrirspurnin er sett fram.

(Forseti (JónK): Forseti mun taka þessa beiðni þingmannsins til skoðunar.)