133. löggjafarþing — 63. fundur,  31. jan. 2007.

reglur um aflífun og flutning búfjár.

250. mál
[14:29]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Herra forseti. Ég ætla að bera upp spurningu til hæstv. umhverfisráðherra sem hljóðar svo: Hvað líður endurskoðun reglna um aflífun og flutning búfjár sem eru frá árunum 1957 og 1958? Þess ber að geta að það er ekki mikil endurnýjun í gerð þessara reglna vegna þess að reglurnar frá árinu 1957 sem eru gefnar út af menntamálaráðherra tóku við af reglum frá árinu 1923 en við sitjum hér uppi með reglur sem eru að stofni til frá árinu 1957. Það er alveg með ólíkindum, sérstaklega þegar gripið er niður í 2. gr. þessara reglna sem segir að alifugla skuli deyða með því að hálshöggva þá með beittri öxi eða með skotvopni. Þetta eru reglurnar. Ég er alveg gáttaður á þessu, sérstaklega í ljósi þess að það er búið að beina fyrirspurnum til hæstv. landbúnaðarráðherra varðandi þetta efni, hvort endurskoðun fari fram á þessum reglum og hvað tefji. Mér finnst að það þurfi að koma fram því að það er ekki hægt að búa við þetta öllu lengur.

En hæstv. landbúnaðarráðherra var af einhverjum framsóknarmanni sem ég man ekki hvað heitir sagður vera svona eins og landvættur. Mér finnst hann vera miklu frekar reglugerðavættur. Það virðist eins og hann sé að vernda reglugerðir. Einhvern tíma var þeim hraða sem er á vinnunni í landbúnaðarráðuneytinu líkt við hraða snigilsins, en þetta er orðinn hraði steingervingsins. Það er alveg með ólíkindum en þetta er alvörumál, herra forseti, vegna þess að það er búið að fækka sláturhúsum um allt land og sauðfé er keyrt um langan veg, af öllum Vestfjörðum og jafnvel úr Breiðdalsvík í Skagafjörðinn. Reglurnar eru frá 1958. Það er ekki hægt að búa við þetta.

Í umræðum á Alþingi fyrir um þremur árum sagði hæstv. landbúnaðarráðherra að það væri gott samstarf við þáverandi umhverfisráðherra. Mig langar að spyrja nú þá sem gegnir starfinu hvort samstarfið sé orðið eitthvað verra. Þessar reglur heyra undir hæstv. umhverfisráðherra en augljóst er að ráðherrarnir eiga að hafa eitthvert samstarf um þennan málaflokk, dýraverndina, og nú er það svo að sú sem gegnir starfi umhverfisráðherra hefur gefið sig út fyrir að vera mikill hvalavinur, ef ég skil hana rétt, og ég spyr þá hvort sauðfé njóti ekki sömu náðar fyrir augum hæstv. ráðherra og hvalirnir sem hún lýsti yfir á haustdögum að hún hefði vissar efasemdir um að ætti að drepa. Mér finnst með ólíkindum að (Forseti hringir.) ekki sé hægt að ganga frá þessum reglum.