133. löggjafarþing — 63. fundur,  31. jan. 2007.

reglur um aflífun og flutning búfjár.

250. mál
[14:36]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég fagna því að í gangi skuli vera vinna við það að endurskoða þessar reglur en ég vil ekki láta hjá líða að hvetja til þess að í þeim verði tekið tillit til heilbrigðis sláturfjár og að vandlega verði skoðaðir flutningar sláturfjár á milli hólfa vegna sauðfjárveikivarna. Það er veruleg áhætta fólgin í þessum flutningum eins og þeir hafa verið framkvæmdir á undanförnum árum. Auk þess eru girðingar sem eru milli þessara hólfa vanræktar og ég tel að þetta sé mál sem menn þurfi að horfa á í samhengi líka fyrir utan auðvitað meðferð þessara skepna sem hér um ræðir. Það er ekki hægt að skilja við þetta mál öðruvísi en að menn hafi farið yfir það í samhengi.