133. löggjafarþing — 63. fundur,  31. jan. 2007.

reglur um aflífun og flutning búfjár.

250. mál
[14:37]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Herra forseti. Ég held að öllum ætti að vera ljóst að þetta er mál sem á að leysa en ekki velta á undan sér. Þetta er einmitt mál sem menn hafa velt á undan sér vegna þess að ráðuneytin deila um það hvorum megin hryggjar það eigi að liggja, hvort landbúnaðarráðherra eigi að hafa þennan málaflokk eða hæstv. umhverfisráðherra sem við erum að spyrja út úr. Þetta sýnir hvað þessi ríkisstjórn er gamaldags, að láta svona mál þvælast ár eftir ár og þingmenn koma hér ár eftir ár — eða reyndar eru þrjú ár síðan — og spyrja út í sömu málin. Og ekkert gerist. Þetta er stórfurðulegt.

Ríkisstjórnin ber þunga ábyrgð á þessum málaflokki vegna þess að eins og ég minntist á hefur hún unnið skipulega að því að fækka sláturhúsum með því að nota einhverja ríkishagræðingu þar sem sláturhúsum er jafnvel lokað í heilu landsfjórðungunum, svo sem á Vestfjörðum, og síðan eru þau fjölmörg í Norðvesturkjördæmi þaðan sem ég kem. Það er alveg stórundarlegt að horfa upp á þetta.

Ég vona sannarlega að hæstv. umhverfisráðherra láti verkin tala í þetta skiptið þótt ég efist um það, því miður. Það er alveg stórundarlegt, ef maður bara horfir á sögu þessa máls, að ekki skuli vera hægt að leysa svona einföld mál. Báðir þessir ráðherrar sem þessi málaflokkur heyrir undir tilheyra sama flokknum en samt sem áður reynir hvort um sig að toga þetta litla mál til sín, hvoru megin eftirlitið eigi að vera. Ég vona svo sannarlega að hæstv. ráðherra gangi frá þessu máli.