133. löggjafarþing — 63. fundur,  31. jan. 2007.

reglur um aflífun og flutning búfjár.

250. mál
[14:39]
Hlusta

umhverfisráðherra (Jónína Bjartmarz) (F):

Herra forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda Sigurjóni Þórðarsyni fyrir þessa ágætu fyrirspurn og jafnframt hv. þm. Jóhanni Ársælssyni fyrir ábendingu hans inn í umræðuna. Ég vil þó halda því til haga vegna orða hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur að það er ekki vegna skorts á fjármunum sem endurskoðun þessara reglugerða hefur ekki tekist. Ég hef ekki enn orðið vör við að menn bæru fyrir sig skort á fjármunum inn í þennan málaflokk, dýravernd, ekki frekar en annað sem menn tala um að þeir gætu notað meira fjármagn í. Það er þó sjálfsagt að huga að því hvar það er statt ef sú er raunin.

Það hljómar einkennilega að heyra hér nefndar reglugerðir sem eru gott eldri en meðalaldur þingmanna í þessum sal er, tel ég alltént, og reglugerðir sem eiga rætur sínar að rekja til 1957 og 1958 hljóma mjög sérkennilega miðað við hraða lagaþróunarinnar og fjölda reglugerða.

Varðandi þó það sem hv. fyrirspyrjandi nefndi hér varðandi fækkun sláturhúsa vegna hagræðingar er ljóst að við þurfum í öllum tilvikum að koma því þannig fyrir að forsvaranlega sé að málum staðið í þessum málaflokki en jafnframt að reglurnar séu ekki svo flóknar að það leiði til hækkunar matarverðs. Það er ákveðið bil þarna á milli og við þurfum að finna það skynsamlega fyrirkomulag sem tryggir okkur hvort tveggja, að eftirlitið, dýraverndin, sé fullnægjandi og jafnframt að það skili sér ekki í hærra verði til neytenda.