133. löggjafarþing — 63. fundur,  31. jan. 2007.

loftslagsmál.

293. mál
[14:42]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Það hefði einhvern tíma þurft að segja okkur Íslendingum það tvisvar að hlýindi yrðu okkar helsta áhyggjuefni en þannig er það nú á tímum. Stærsta verkefni alþjóðasamfélagsins, sú mesta ógn sem við stöndum frammi fyrir er hin hnattræna hlýnun og þess vegna hafa menn verið að leita ráða sameiginlega og á alþjóðavettvangi og hver í sínu landi til að fást við það verkefni og leita lausna sem gætu dregið úr þeirri miklu mengun sem hefur stórfelld neikvæð áhrif fyrir heimsbyggðina alla og er nú svo komið að þrátt fyrir að ýmsar efasemdaraddir hafi, fyrir ekki mörgum árum, hljómað um hina hnattrænu hlýnun þá eru þær efasemdaraddir nú allar hljóðnaðar og almennt viðurkennt að loftslagsbreytingarnar í heiminum eru eitthvert mest aðkallandi og brýnasta viðfangsefni okkar.

Þróaðar þjóðir, samstarfsþjóðir okkar hafa hver af annarri markað sér stefnu í þeim efnum og við höfum líka gert alþjóðlegan samning, Kyoto-samninginn sem lýtur að loftslagsmálum á tímabilinu 2008–2012. En þjóðir eins og Norðmenn og Svíar, ríkjasambönd eins og Evrópusambandið, ríki eins og Kalifornía og flest ríki að ég held á Vesturlöndum nú orðið, hafa sett sér stefnu í loftslagsmálum og markmið um það hvernig þær hyggist draga úr loftslagsmengun á komandi árum og áratugum. Þess vegna er eðlilegt að spurt sé hver sé stefna ríkisstjórnar Íslands í loftslagsmálum, hvaða markmið ríkisstjórnin hefur sett sér um að draga úr loftslagsmengun á næstu árum og áratugum.

Ég hef þannig bent á að í Kaliforníu hefur ríkisstjórinn, Arnold Schwarzenegger, sett að markmiði að þar verði dregið úr mengun um 50% fyrir árið 2050. Evrópusambandið hefur nýverið gefið það út að það hyggist draga úr mengun um 20% fyrir árið 2020 og sé tilbúið til að ráðast í 30% samdrátt ef önnur iðnríki koma með. Það er þess vegna eðlilegt að hæstv. umhverfisráðherra sé spurður hver sé afstaða ríkisstjórnar Íslands til þeirrar yfirlýsingar Evrópusambandsins og hvort Ísland sé tilbúið til að ganga jafnlangt í því að draga úr mengun og Evrópusambandið hefur lagt til. Sömuleiðis er eðlilegt að spyrja ráðherrann hvernig hann hyggist tryggja að mengun hér, eftir 2008–2012 vegna íslenska ákvæðisins, fari ekki yfir 1,6 milljón tonna að meðaltali en samkvæmt fyrirliggjandi stóriðjuáformum virðist það vera að mengun þá um áramótin verði komin fram úr þeim heimildum sem gilda á því tímabili. (Forseti hringir.) Einnig vil ég spyrja hæstv. umhverfisráðherra hvort það sé stefna ríkisstjórnarinnar að sækja auknar mengunarheimildir í framhaldsviðræðum um næstu áfanga í Kyoto-samningnum.