133. löggjafarþing — 63. fundur,  31. jan. 2007.

loftslagsmál.

293. mál
[14:50]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Það er alveg ljóst hver stefna núverandi ríkisstjórnar í loftslagsmálum er. Hún er í öllu falli allt annað en tryggja að það verði dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi. Hún fjallar öll um það að gera einhverjar tæknilegar úrlausnir, finna einhverjar tæknilegar úrlausnir fyrir samgöngurnar eins og auka hlut dísilbíla í umferðinni, eins og að binda CO 2 í skógi og annað slíkt en þessa ríkisstjórn vantar áætlun um það á hvern hátt eigi að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Ríkisstjórnin er að gera eitthvað allt annað. Hún er að tryggja að hér sé komið upp álbræðslu og er komin svo langt fram úr skuldbindingum okkar varðandi Kyoto-sáttmálann árið 2012 að það er öruggt að þangað þarf að sækja gríðarlegar umframheimildir og um það hefur hæstv. fyrrverandi forsætisráðherra Halldór Ásgrímsson gefið yfirlýsingar hér og ég heyri ekki á hæstv. umhverfisráðherra að sú stefna hafi eitthvað breyst.