133. löggjafarþing — 63. fundur,  31. jan. 2007.

dragnótaveiðar.

399. mál
[15:11]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Sigurjón Þórðarson fann að því að ég væri að vitna til laga og reglugerða þegar ég svaraði spurningum sem lúta einmitt að lögum og reglugerðum. (Gripið fram í.) Það er ekki þannig að sjávarútvegsráðherra hafi sjálfdæmi í öllum hlutum. Hann verður auðvitað að styðjast við lög og reglugerðir sem betur fer. (Gripið fram í.) Þess vegna þegar verið er að spyrja um forsendur fyrir ákvörðunum ráðherrans þá verður hann að vitna til laga og reglna Það er bara þannig og ég vona að þeir sem eru þingmenn og eru að setja lög séu ekki að finna að því að þannig sé staðið að málum.

Hv. þingmaður vitnaði til þess sem ég hef áður sagt, að ég spái því að áfram verði deilur um veiðarfæri. Það byggi ég bara á gamalli reynslu, hv. þingmaður, og ég hygg að hv. þingmaður sé kannski ekki alveg ósammála mér um þetta. Það er einfaldlega þannig að þetta eru álitamál. Þarna greinir menn á. Hv. þingmaður vitnaði í kunnan sjósóknara, Níels Ársælsson sem er umdeildur maður á margan hátt. En hann hefur óneitanlega gríðarlega mikla reynslu af dragnót. Hann hefur þetta ýtrasta sjónarmið. Svo þekkjum við þá sem telja að dragnótin sé bölvaldur alltaf og alls staðar.

Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að það sé vel hægt að koma á svona veiðarfærastýringu. Ég held að það verði stóra verkefnið okkar á margan hátt á komandi árum vegna þess að mjög margt annað sem við höfum verið að ræða er ekki rætt af jafnmiklum ákafa og offorsi. Ég held að þetta sé mjög spennandi viðfangsefni, að þetta sé viðfangsefni sem við eigum að fást við.

Ég vil ekki ljúka umræðunni þannig að menn skilji það svo að ég telji að það geti ekki einhvern tíma gilt fiskifræðileg rök þegar við ræðum þessi veiðarfæri. Þvert á móti held ég að fiskifræðileg rök geti oft átt við. En í þessu tiltekna tilviki sem snýr að Skagafirði þá taldi Hafrannsóknastofnun að ekki giltu sérstök fiskifræðileg rök þar.

Við erum að beita svona veiðarfærastýringum heilmikið. Af því að hv. þingmaður nefndi steinbítinn og hrygningarsvæðið þá er eins og hann veit núna búið að setja í reglugerðir ákvæði sem fela í sér heilmikla friðun á steinbítnum einmitt á hrygningartímanum. Það var líka mjög umdeilt (Forseti hringir.) meðal sjómanna sjálfra. Þar réðu hagsmunir gríðarlega miklu og þá verða menn síðan að klippa á og (Forseti hringir.) taka af skarið og oft er það pólitísk ákvörðun.