133. löggjafarþing — 63. fundur,  31. jan. 2007.

svæðisbundin fiskveiðistjórn.

401. mál
[15:23]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessi svör. En ég verð að benda hæstv. ráðherra á að í því starfi sem hann ætlar að fara í, að byggja upp þorskstofninn, hvað sem það nú er, er vert að hafa í huga að ekkert samband er á milli stærðar hrygningarstofns og mikillar nýliðunar. Aldrei hefur verið sýnt fram á það. Síðan eigum við ekki að flækja þessa umræðu allt of mikið, þetta er ekki flókið, með því að velta erfðafræðinni fyrir sér, DNA eða einhverju slíku. Þetta snýst um fiskimið og á ákveðnum fiskimiðum er ákveðinn hópur fiska. Hvort þeir eru sambærilegir að uppruna og svoleiðis skiptir ekki máli. En ætlum við að nýta þessi fiskimið eða ætlum við bara að nýta þau fiskimið sem eru togaramið? Um það snýst spurningin. Ætlum við að hætta að nýta fiskimiðin í Bakkaflóa eins og hætt er við með núverandi fiskveiðistjórn, þar sem þessu er stjórnað eins og um einn pott væri að ræða? Þetta er ekki einn pottur. Þetta eru margir pottar og það er einfaldlega óskynsamlegt að hætta að nýta fiskimiðin hringinn í kringum landið og líta á þetta eins og eitt mengi.

Þetta hefur gengið mjög langt, þessi kerfislægi hugsanagangur hjá núverandi hæstv. sjávarútvegsráðherra og forverum hans. Það hefur gengið svo langt að jafnvel á Kópaskeri hefur fermingarbarni verið bannað að leggja línu í fjöruna fyrir fisk vegna þess að þá væri það að veiða úr einhverjum sameiginlegum potti og mögulega raska lífríkinu. Þetta er með ólíkindum að fólk skuli vera að halda í svona kerfi sem stangast algerlega á við alla skynsemi, halda því áfram árið 2007, þegar reynslan hefur sýnt að það hefur ekki skilað neinu nema tjóni og í löndunum (Forseti hringir.) í kringum okkur er sama sagan.