133. löggjafarþing — 63. fundur,  31. jan. 2007.

vaxtarsamningur Vestfjarða.

528. mál
[15:31]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Jón Sigurðsson) (F):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir spyr um framkvæmd vaxtarsamnings fyrir Vestfirði og tengd málefni.

Svar við fyrstu spurningu hv. þingmanns: Áætlað er að ráðist verði í mat á árangri vaxtarsamnings Vestfjarða á næsta ári. Framkvæmd vaxtarsamnings Vestfjarða má skipta í tvennt. Annars vegar eru verkefni sem tengjast þremur klösum sem upphaflega voru skilgreindir sem megináherslur samningsins. Þeir eru sjávarútvegsklasi, mennta- og rannsóknarklasi og menningar- og ferðaþjónustuklasi. Hins vegar eru einstök verkefni sem verkefnastjórn um byggðaáætlun fyrir Vestfirði skilgreindi á sínum tíma og finna má í skýrslu um vaxtarsamning Vestfjarða.

Verkefni sem tengjast sjávarútvegsklasa eru:

1. Mat á kostnaði við land- og sjóflutninga og greining forsendna þess að hefja vikulegar strandsiglingar milli Reykjavíkur og Vestfjarða.

2. Gæðamál fiskiðnaðar og uppbygging ímyndar vestfirskra fyrirtækja og tengsl þessa við ímynd Vestfjarða sem nútímalegs samfélags.

3. Samræming á stefnu og vinnubrögðum sjávarútvegsfyrirtækja í endurmenntun og mannauðsstjórnun með það að markmiði að efla stolt og virðingu starfsmanna fyrir starfi sínu.

4. Mat á hagkvæmni þess að stofna til formlegs samstarfs um sameiginleg innkaup á aðföngum.

5. Mat á nauðsyn vöruþróunar og nýsköpunar í starfandi fyrirtækjum.

Verkefni sem tengjast mennta- og rannsóknarklasa eru:

1. Uppbygging þjóðtrúarstofu á Ströndum.

2. Námskeið í sýningargerð sem haldið var á Hrafnseyri.

3. Allmörg verkefni eru í undirbúningi, þ.e. gerð kynningarefnis um rannsóknir í sjávarútvegi á Vestfjörðum, markaðssetning Vestfjarða sem heimildarmyndasvæðis, efling fjarkennslu á Vestfjörðum, meistaranám fyrir iðnaðarmenn, háskóli unga fólksins, íslenska sem annað nám og dreifð nám í samstarfi við Menntaskólann á Ísafirði.

Verkefni sem tengjast menningar- og ferðaþjónustuklasanum eru:

1. Vöruþróun í ferðaþjónustu.

2. Hagvöxtur á heimaslóð, í samráði við Útflutningsráð Íslands.

3. Samstarfsverkefni einleikarahátíðarinnar Act Alone og tónlistarhátíðarinnar Við Djúpið.

4. Mat á tækifærum í tengslum við fuglaskoðun.

5. Mat á tækifærum sem felast í þróun minjagripa sem byggja á sérkennum landshlutans.

Auk þessa mælti verkefnastjórn um byggðaáætlun fyrir Vestfirði sérstaklega með allmörgum verkefnum sem eru utan klasa.

Svar við annarri spurningu hv. þingmanns:

Bein framlög til vaxtarsamningsins frá gildistíma hans, 2005–2008, eru alls 112 millj. kr., auk iðnaðarráðuneytis, sem greiðir 75 millj., og Ísafjarðarbæjar skiptist það á milli 8 félaga og fyrirtækja á Vestfjörðum. Að auki eru framlög frá sex félögum og stofnunum í formi vinnuframlags metin jafngilda 28 millj. á samningstímanum. Heildarframlög eru því 140 millj. kr. Á árinu 2006 voru 7,1 millj. kr. veittar til einstakra verkefna auk þess sem vinnuframlag að upphæð 5 millj. kr. var veitt í formi sérfræðivinnu.

Svar við þriðju spurningu hv. þingmanns:

Eins og fram kemur í riti Byggðastofnunar og Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, Hagvöxtur landshluta 1998–2004, hefur hagvöxtur í Norðvesturkjördæmi almennt verið lítill sem enginn. Að mati Byggðastofnunar má rekja ástæður þessa fyrst og fremst til þess að atvinnulífið byggist á frumframleiðslugreinum umfram það sem gerist á öðrum svæðum. Efling menntunar og atvinnuþróun með nýsköpun í starfandi fyrirtækjum og stofnun nýrra fyrirtækja á grunni þekkingar hefur því verið leiðarljós stjórnvalda. Lögð er áhersla á eflingu háskólanáms á Ísafirði í tengslum við uppbyggingu þekkingarsetursins. Enn fremur hafa opinberar stofnanir og störf á vegum opinberra stofnana verið flutt inn á svæðið á undanförnum árum.

Öllum er kunnugt um að íbúar vestra telja sanngjarnt og eðlilegt að á komandi missirum verði sérstaklega hugað að vaxtar- og atvinnuþróunarverkefnum í þessum landshluta. Um aðgerðir stjórnvalda er fyrst og fremst að nefna framkvæmd vaxtarsamnings Vestfjarða og þær viðræður sem staðið hafa að undanförnu um vaxtarsamning fyrir Norðurland vestra. Ég tek því undir orð hv. þingmanna og íbúa um áhyggjur af þeirri þróun sem orðið hefur.