133. löggjafarþing — 63. fundur,  31. jan. 2007.

vaxtarsamningur Vestfjarða.

528. mál
[15:36]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (F):

Virðulegi forseti. Um vaxtarsamning Vestfjarða má segja að hann er eins og sandkorn í stundaglasi. Hann gerir sitt gagn í rétta átt en er svo lítill að einn og sér markar hann engin spor og breytir engri þróun. Þróunin á því tímabili sem Byggðastofnun tók til athugunar er lýsandi fyrir það að menn hafa reynt að bregðast við því sem menn vissu að mundi gerast með einu sandkorni.

Hagvöxtur á mann á þessum landshlutum hefur verið núll í Norðurlandi vestra en aðeins 5% á Vestfjörðum meðan hann hefur verið 27% á höfuðborgarsvæðinu. Þetta þýðir að munurinn á tekjum fyrir aðalstarf á Vestfjörðum og á Norðurlandi vestra hefur vaxið frá því sem var. Tekjur á höfuðborgarsvæðinu eru í dag 27% hærri fyrir ársstarf en á Vestfjörðum. Þetta er aðalástæðan fyrir þróuninni, virðulegi forseti, mismunandi lífskjör sem fara versnandi.