133. löggjafarþing — 63. fundur,  31. jan. 2007.

vaxtarsamningur Vestfjarða.

528. mál
[15:37]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Í sjálfu sér er vaxtarsamningur Vestfjarða ágætur sem slíkur. En ég ætla að taka undir með þeim sem talaði á undan mér. Þetta er lítið á móti þeim öflum sem Framsóknarflokkurinn hefur sett af stað til að eyða byggð á Vestfjörðum. Ég verð að segja það og tala hreint út.

Það má segja að fiskveiðistjórnarkerfið grafi undan þessum byggðum. Við í Frjálslynda flokknum höfum lagt fram frumvarp sem strax mundi snúa þróuninni við ef samþykkt yrði.

Í fyrsta lagi á að gefa handfæraveiðar frjálsar. En það eru aðrir þættir sem þarf að bæta, t.d. samgöngur. Hverjar voru efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar? Þær voru að blása af samgöngubætur í þessum landsfjórðungi, sem stendur hvað verst. Það var alveg með ólíkindum. Í þessu birtist stefna stjórnvalda og í raun hefur formaður Framsóknarflokksins, hæstv. byggðamálaráðherra, birt stefnu sína í riti Borgfirðinga árið 2004, sem ber nafnið Borgríkið. Ég hvet framsóknarmenn til að skoða þá grein.

(Forseti (SAÞ): Forseti áminnir þingmenn um að gæta að ræðutíma samkvæmt þingsköpum.)