133. löggjafarþing — 63. fundur,  31. jan. 2007.

bættir innheimtuhættir.

482. mál
[15:43]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Mjög hefur verið kallað eftir því, m.a. af Neytendasamtökunum, að sett verði í lög ákveðnar meginreglur um innheimtu til hagsbóta fyrir neytendur, m.a. um góða innheimtuhætti. Markmiðið með slíkum lögum er að draga úr óeðlilegum kostnaði skuldara af innheimtuaðgerðum.

Fyrrverandi viðskiptaráðherra Finnur Ingólfsson flutti frumvarp til innheimtulaga á 123. þingi fyrir um 10 árum en þá strandaði málið á ágreiningi milli stjórnarflokkanna Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Á síðastliðnum árum hefur sú sem hér stendur ítrekað flutt sambærileg frumvörp með þó nokkrum breytingum frá því það var lagt fram af fyrrverandi viðskiptaráðherra og að teknu tilliti til umsagna frá umsagnaraðilum við meðferð málsins á þingi.

Innheimtulög eru vel þekkt hjá flestum nágrannaþjóðum okkar, m.a. á Norðurlöndum, en ekki hefur enn tekist að setja slík lög hér á landi vegna ágreinings milli stjórnarflokkanna enda er staða skuldara hér afar veik og innheimtuaðilar geta hagað sér frjálslega við gjaldtöku af þeim sem lenda í fjárhagserfiðleikum og vanskilum.

Í frumvarpi viðskiptaráðherra sem ekki náði fram að ganga fyrir 10 árum var kveðið á um heimild viðskiptaráðherra til að kveða á um í reglugerð hámark innheimtukostnaðar, m.a. þóknunar. Með því var stefnt að því að skapa hjá innheimtuaðilum almennt, þar á meðal lögmönnum, viðskiptabönkum og sparisjóðum, virkt aðhald við innheimtu peningakrafna. Ástæða er til að nefna að Samkeppnisstofnun gerði á árinu 1997 athugasemdir við fyrirkomulag og innheimtu lögmanna og taldi að verja þyrfti fólk sem enga samningsstöðu hefur gagnvart lánardrottnum. Þennan slag sem stóð fyrir 10 árum milli sjálfstæðismanna og framsóknarmanna unnu sjálfstæðismenn því árið 1998, ári eftir að frumvarp þáverandi viðskiptaráðherra var lagt fram 1997, en þá var samþykkt ákvæði í lögum um lögmenn þess efnis að dómsmálaráðherra skuli gefa út leiðbeiningar að fenginni umsögn Lögmannafélags Íslands, um endurgjald sem þeim sé hæfilegt að krefjast úr hendi skuldara. Eftir því sem ég best veit hafa aldrei verið settar slíkar leiðbeinandi reglur af hálfu dómsmálaráðherra. Þetta fyrirkomulag tel ég að sé afar óhagstætt neytendum og skuldurum almennt auk þess sem verulega má bæta innheimtuhætti til hagsbóta fyrir skuldara. Þess vegna er nú spurt:

1. Telur ráðherra að bæta þurfi stöðu skuldara gagnvart innheimtuaðilum og hver er ástæða þess að ekki hafa verið sett innheimtulög hér á landi?

2. Hver er skoðun ráðherra á því að lögmenn geti einhliða ákveðið gjaldskrár sínar og hvað hefur verið gert af hálfu ráðuneytisins til að koma til móts við sjónarmið Samkeppnisstofnunar sem gagnrýnt hefur þessa tilhögun?

3. Telur ráðherra það ekki heppilegri tilhögun að viðskiptaráðherra ákveði hámarksfjárhæð innheimtukostnaðar, t.d. þóknunar sem heimilt er að krefja skuldara um, m.a. í ljósi athugasemda Samkeppnisstofnunar?

4. Má vænta þess að ráðherra beiti sér fyrir löggjöf sem festi í sessi góða innheimtuhætti, m.a. með setningu innheimtulaga?