133. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2007.

tilkynning um dagskrá.

[10:30]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Mér finnst nauðsynlegt að geta hér í nokkrum orðum þess ástands sem komið er upp í fangelsismálum okkar með uppsögnum fangavarða. Þótt hæstv. dómsmálaráðherra sé ekki viðstaddur langar mig til að brýna aðeins okkur sjálf, löggjafarsamkunduna, og fjárlaganefnd Alþingis vegna þessa vanda sem við horfum núna fram á. Þegar nær helmingur allra fangavarða í landinu hefur sagt upp störfum vegna lélegra kjara og óviðunandi vinnuaðstæðna verðum við að skoða í eigin barm. Við vitum af sleifarlaginu sem hefur viðgengist í fangelsismálum og við heyrðum á forstjóra Fangelsismálastofnunar í gær í sjónvarpinu að þrátt fyrir mjög eljusama vinnu hjá stofnuninni við stefnumörkunina nýju hafa fjármunir ekki fylgt þeim hugmyndum sem þar hafa verið til staðar. Þó að framkvæmdir séu að hefjast á Kvíabryggju núna og þó að framkvæmdir hafi staðið yfir á Litla-Hrauni er sleifarlagið varðandi úrlausn fangelsismála á Reykjavíkursvæðinu óviðunandi. Þar er við okkur að sakast sem höfum ekki sett þá fjármuni í þennan málaflokk sem nauðsynlegir hafa verið. Ríkisstjórnin hefur dregið lappirnar og þarf að hysja upp um sig í þessum efnum til að tryggja að ástand mála batni.

Við vitum öll — eða kannski vitum við það ekki — við hvaða aðstæður fangaverðir starfa. Þarna er stétt sem við leggjum gríðarlega ábyrgð á, fólk sem glímir við undirmönnun, býr við mikla áhættu í starfi og gríðarlegt áreiti, bæði líkamlegt og andlegt. Þessu fólki finnst ekki nægilegur stuðningur við sín mikilvægu störf þegar það gerist sem gerst hefur að það hefur dregist svo mikið sem raun ber vitni aftur úr viðmiðunarstéttum sínum sem eru lögreglumenn og tollverðir. Þetta er spurning um stefnumörkun í fjármálum. Við höfum ekki staðið okkar plikt, og ríkisstjórnin ekki, í þessum efnum. Það er við hana að sakast. (Forseti hringir.) Við þurfum að breyta um kúrs.