133. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2007.

uppsagnir fangavarða – samgönguáætlun.

[10:33]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vildi nota tækifærið og spyrja hæstv. samgönguráðherra nokkurs. Samkvæmt fréttum síðustu daga, í ríkissjónvarpinu í gærkvöldi, á Stöð 2 á laugardaginn, stendur til samkvæmt drögum að samgönguáætlun sem nú eru rædd í stjórnarflokkunum að fara hina svokölluðu 2+1 leið á Suðurlandsvegi. Síðan verði fjórðu akrein bætt við síðar á næstu átta árum og þar með verði einhvers konar tvöföldun lokið að mati samgönguyfirvalda þannig að hin umdeilda 2+1 leið verði farin og skilið milli akreina með vír eða vegriði á milli og það verði hin svokallaða tvöföldun að mati hæstv. ráðherra.

Þetta var að hluta borið til baka síðar í fréttum í gær, þótt það hafi ekki verið gert um helgina, og því er ástæða til að skora á hæstv. samgönguráðherra að skera úr um hvað hið rétta er í málinu. Verði farin hin svokallaða 2+1 leið, eins og fréttir herma að lagt sé til í samgönguáætlun, þó að með loðnu orðalagi og einhvers konar blekkingum eigi að tala um tvöföldun þar sem eigi að bæta fjórðu akrein við 2+1 framkvæmdina löngu seinna, er málið í uppnámi. Sveitarfélagið Ölfus neitar að taka það inn á skipulag sitt og það er líka þvert á fyrri yfirlýsingar hæstv. samgönguráðherra í málinu í desember þar sem hann tók þá undir að það yrði að fara að stífri kröfu um að tvöfalda veginn alla leið.

Því má bæta við að einn hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins lýsti því yfir í Fréttablaðinu í janúar, hv. þm. Kjartan Ólafsson, að hann ætlaði í stríð við samgönguráðherra gengi það ekki eftir að vegurinn yrði tvöfaldaður tafarlaust án þess að fyrst yrði farið í 2+1 framkvæmd. Það eru stríðsyfirlýsingar í Sjálfstæðisflokknum við að fara 2+1 leiðina. Hana á að fara samkvæmt fréttum úr drögum að samgönguáætlun sem nú liggja hjá stjórnarflokkunum og því hlýtur hæstv. samgönguráðherra að svara því skýrt og skorinort hvora leiðina eigi að fara. Á að fara einhverja blekkingarleið 2+1 og bæta fjórðu akrein við síðar og vír á milli eða á að tvöfalda leiðina eins og krafa er um að gert verði og er það eina sem samstaða er (Forseti hringir.) um meðal t.d. sveitarfélaga?