133. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2007.

uppsagnir fangavarða – samgönguáætlun.

[10:35]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Margar þingræður hv. þingmanna stjórnarandstöðunnar og sérstaklega Samfylkingarinnar hefjast á „Eins og fréttir herma“. Síðan búa menn til í kringum það tilefni til umræðu hér undir liðnum um störf þingsins. Þetta er afskaplega sérkennilegur málflutningur. Væri ekki rétt fyrir hv. þingmann að bíða eftir plagginu og lesa í þingskjölum hvaða tillögur er verið að gera (Gripið fram í.) frekar en að koma hér upp með jöfnu millibili og ræða um hönnun vega? Að vísu ber svo vel í veiði að ég er sérstaklega menntaður í því að hanna vegi þannig að ég get vel tekið þá umræðu en ég tel að það sé ekki tímabært eða eðlilegt að ég gefi út yfirlýsingar hér um veghönnun.

Þingsályktunartillaga um 12 ára og fjögurra ára samgönguáætlanir berst á borð þingmanna á næstunni og það er alger óþarfi fyrir hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson að gera hverja tilraunina á fætur annarri til að gera mig tortryggilegan í því sem snýr að Suðurlandsvegi. Ég mun leggja áherslu á það eins og ég hef gert að sá vegur verði byggður upp hratt og vel og eins öruggur og nokkur kostur er. Ég veit alveg hvað til míns friðar heyrir í þeim efnum. (Gripið fram í.) Ég held að hv. þingmenn eigi bara að bíða rólegir, fá þingskjölin á borðið og nýta þá afl sitt til umfjöllunar. Það stendur ekki til að ganga með nokkrum hætti á rétt Sunnlendinga í þeim efnum sem varða vegamál.

Það blasir nokkuð við hvernig þetta verður ef það er niðurstaða tiltekinna sveitarstjórna að þær ætli sér að taka ákvörðun um hönnunarforsendur vega (Forseti hringir.) í gegnum sitt svæði.