133. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2007.

uppsagnir fangavarða – samgönguáætlun.

[10:39]
Hlusta

Valdimar L. Friðriksson (Fl):

Frú forseti. Hér er verið að ræða tvö athygliverð mál. Varðandi málefni fangavarða snýst þetta um miklu meira en kjarasamninga, hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir. Þetta snýst líka um aðbúnað. Það sem gerðist t.d. núna á Akureyri þegar menn sluppu þar út úr fangelsinu var einfaldlega af því að þar er einungis einn fangavörður á vakt. Fangelsi á tveimur hæðum, afplánunarfangar á annarri og gæsluvarðhaldsfangar á hinni. Þar að auki þarf vakthafandi fangavörður að fara með fangana út úr fangelsinu ef svo ber undir. Þar af leiðandi er stundum enginn fangavörður á vakt. Þetta snýst um miklu meira en bara kjarasamninga. Þetta snýst um aðbúnað (ArnbS: … ræða …) fangavarða líka. Það snýst um hversu fáir þeir eru.

Varðandi Suðurlandsveg, frú forseti, þá sannast hér enn og aftur ægivald ráðherranna. Hér gengu menn um sveitir í prófkjöri, t.d. framsóknarmanna fyrir stuttu með hæstv. landbúnaðarráðherra Guðna Ágústsson fremstan í broddi fylkingar, þar sem þeir lofuðu Suðurlandsvegi 2+2. Hvers vegna skyldi það vera að samgönguáætlunin hafi ekki komið fram fyrir það prófkjör? Er það algjör tilviljun? (Gripið fram í.) Er það algjör tilviljun, frú forseti? (SKK: Af hverju hefur þú skyndilega áhuga á þessu?) Af hverju? Hefur þú aldrei áhyggjur af því, hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, að þessi vegur sé dauðagildra? Hefur þú engar áhyggjur af því? Ertu ekki kominn með bílprófið aftur, eða hvað?

(Forseti (SAÞ): Forseti vill taka það fram að ekki skal ávarpa þingmenn í 2. persónu. Þar að auki er ekki ætlast til að samtöl séu stunduð á milli ræðumanns og þingmanna í salnum.)