133. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2007.

uppsagnir fangavarða – samgönguáætlun.

[10:41]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég held að það sé ekki ástæða fyrir samgönguráðherra til að kveinka sér undan því þó að samgöngumál séu rædd á þinginu. Ráðherra á eina auðvelda leið út úr því að menn byggi í þeim efnum á fréttaflutningi fjölmiðla og hún er sú að koma samgönguáætlun til þingsins á eðlilegum tíma. Það er kominn febrúar, það á að klára þing fyrir miðjan mars og samt bólar ekki enn á áætluninni á borðum þingmanna. Þetta er auðvitað engin frammistaða, það verður að segjast eins og er. Ella væri hægt að ræða þetta á grundvelli þeirra staðreynda sem þar munu birtast.

Varðandi ástandið í fangelsismálum tek ég bara undir að það er full þörf á því að taka það hér upp á þingi. Það þarf ekki alltaf að gera það til þess að draga ráðherra fram á völlinn. Alþingi sjálft varðar þetta mál, og nefndir eins og fjárlaganefnd og allsherjarnefnd hafa að sjálfsögðu vissa frumkvæðisskyldu þegar ófremdarástand kemur upp í málaflokki af þessu tagi. Það er neðan við allar hellur hvernig staðið er að þessu hér, bæði hvað varðar húsnæðismálin þar sem búið er við algerlega óbrúklegt húsnæði og fangar geta jafnvel hleypt sér út sjálfir ef svo ber undir eins og dæmin sanna og síðan er málaflokkurinn í fjársvelti. Það er undirmönnun og það er ekki hægt að borga fangavörðum þannig laun að þeir tolli í starfi.

Það er alveg sama hvar borið er niður, þetta er engin frammistaða. Og ráðherrarnir eru svo kannski ekki endilega réttu mennirnir til að ræða þetta við vegna þess að þeir standa sig ekki betur en raun ber vitni. Þá verður Alþingi að taka málið í sínar hendur og skoða bæði faglega og fjárhagslega hvernig eigi að takast á við þessi mál. Svona getur þetta ekki gengið. Ég skora á þær þingnefndir sem hér eiga í hlut að funda um málið, kalla til sín málsaðila og vita hvort ekki er hægt að ná þessu úr höndum ráðherranna sem greinilega gera ekki skyldu sína að gera þarna á bragarbót.