133. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2007.

uppsagnir fangavarða – samgönguáætlun.

[10:43]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Það er orðin löng umræða um þessi fangelsismál. Það má næstum líkja henni við vandræði Náttúrugripastofnunar. Það er búið að tala áratugum saman um að byggja yfir þá starfsemi en það gerist ekkert í því. Fangarnir hlaupa út og inn, þeir eru vistaðir á stofnunum og eru svo ekki heima þegar að er gáð. Það er ýmislegt sem þarf að fara yfir í þessum málum alveg greinilega og ég er sannfærður um að hluti af óánægju fangavarða tengist einmitt aðstöðuleysinu og vandamálunum sem fylgja því að sinna störfunum. Hér er auðvitað ástæðan fyrir því, Alþingi hefur ekki tryggt að eðlilega sé staðið að þessum málum. Aðstaðan er svo slæm að það virðist þurfa alveg sérstaka fanga til þess að fá fram endurbætur eins og sannaðist á Kvíabryggju þegar þar voru endurnýjuð rúmin til að liggja í.

Síðan langar mig aðeins að bæta við umræðuna um þessa samgönguáætlun, eða vegáætlun sem hefur verið boðuð af hæstv. ráðherra. Hann hefur sagt að hún sé að koma á næstunni alveg frá því í haust. Nú er byrjaður febrúar og enn segir hæstv. ráðherra að það sé von á vegáætlun á næstunni. Þetta er gjörsamlega óviðunandi og maður hlýtur að velta fyrir sér hvað í ósköpunum sé að gerast. Hvers konar vandræðagangur er á hæstv. samgönguráðherra? Er allt upp í loft í stjórnarflokkunum um það hvað á að gera, hvort 2+1 eru sama sem fjórir eða hvað eiginlega eigi að gerast í sambandi við þau mál sem tekist er á um í samgönguáætlun? Auðvitað þarf þingið að fá (Forseti hringir.) þessa áætlun í hendur strax.