133. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2007.

leiga aflaheimilda.

[11:15]
Hlusta

Guðjón Hjörleifsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Sigurjóni Þórðarsyni fyrir þessa umræðu. Það er eðlilegt í umræðu um leigu aflaheimilda að ræða jafnframt um framsalið svo og veiðiskylduna. Ég tel að markaðurinn stjórni að hluta leiguverði á aflaheimildum. Þegar aflaheimildir í ýsu voru auknar lækkaði leiguverð á ýsu. Þegar aflaheimildir í þorski voru minnkaðar hækkaði leiguverðið.

Einnig hefur orðið töluverð umræða um veiðiskylduna sem í dag er 50%. Það má lengi deila um hver þessi prósenta á að vera. Það er mikilvægt í rekstri útgerða, bæði stórra og smárra, að geta haft tegundatilfærslu í rekstrinum.

Í dag er verið að leigja 1 kíló af þorski á móti 5,5 kílóum af karfa. Þorskur er með ígildi 1 en karfi 0,69. Þá er einnig þannig farið þegar útgerðarmaður leigir frá sér, annaðhvort með jöfnum skiptum í peningum eða gerir viðskiptin með jöfnum skiptum. Ef hann leigir 1 kíló af þorski fær hann 5,5 kíló af karfa. Hann hefur þá leigt til sín 3,8 þorskígildi. Ef tegundatilfærsla væri ekki til staðar mundi sviptingum veiðileyfa fjölga töluvert. Hvað mundi gerast ef við færðum veiðiskipin upp í 75%? Úthlutaðar veiðiheimildir í þorski hafa minnkað töluvert. Leiguverð af þeim 25% sem eftir stæðu af þorski hækkaði það mikið að þeir sem eru með litlar aflaheimildir og hafa verið duglegir að leigja aflaheimildir hafa ekki svigrúm til að reka útgerð sína. Ég er þess fullviss að útvegsbændur eru ekki á móti því að hækka veiðiskylduna en teldu mikilvægt að hægt væri að hafa tegundatilfærslu milli skipa hjá sama fyrirtæki. Ég hef meiri áhyggjur af þeim sem eru í krókaaflamarkskerfinu svo og þeim byggðum þar sem aflaheimildir hafa minnkað.

Ég vil líka benda á að bátar í krókaaflamarkskerfinu leigja til sín mikið af ýsu úr stóra kerfinu. Ég fullyrði að krókaaflamarksbátarnir leigja til sín mikla ýsu vegna þess að þeir hagnast á leigunni. Þrengri skorður á framsali munu því vafalítið hafa mikil áhrif á krókaaflamarksbátana.

Virðulegi forseti. Hv. þingmenn Frjálslynda flokksins þurfa jafnframt að svara hvernig þeir sjái að breytingar sem þeir tala oft fyrir hafi áhrif á sjávarpláss og útgerðir sem starfa í núverandi fiskveiðistjórnarkerfi. Það er samt ekkert óeðlilegt að frjálslyndir reyni að fá utandagskrárumræðu um ýmis mál til að dreifa athygli frá sínum eigin vandamálum. Ég beini því til þeirra í vinsemd, (Forseti hringir.) hæstv. forseti, að taka nú upp kvótakerfi í sínum flokki, ekki með kynjakvóta heldur kvennakvóta. (Forseti hringir.) Eftir það munuð þið sennilega sjá meiri frið í ykkar flokki, nákvæmlega eins og er að gerast í sjávarútveginum þar sem friður og sátt eru aldrei meiri en nú.