133. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2007.

stjórn fiskveiða.

432. mál
[11:37]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er oft þannig þegar maður reynir að svara hv. þingmanni að þá er eins og hann setji eyrnatappa í eyrun til að koma örugglega í veg fyrir að hann heyri það sem maður er að segja.

Ég vakti einfaldlega athygli á því að hér væri að hefjast mjög merkileg og mikilvæg atvinnustarfsemi sem (Gripið fram í: Og í kvóta.) byggir á því að selja ferðamönnum aðgang að því að veiða á Íslandsmiðum. Þarna er um atvinnustarfsemi að ræða og það er alveg ljóst að við verðum að setja lög í kringum hana til að auðvelda vöxt og uppbyggingu þeirrar atvinnustarfsemi. Hluti af því sem er grundvöllur þessarar atvinnustarfsemi er að menn geti haft tekjur af því sem verið er að veiða. Þetta gengur auðvitað út á það. Þess vegna þarf að gera ráð fyrir því í lögunum að þessi atvinnustarfsemi sé til staðar og að sú atvinnustarfsemi geti fénýtt tekjurnar af því að veiða fisk. Hvað er óeðlilegt við það? Mér finnst mjög eðlilegt að við reynum að gera það og reynum að opna þessari nýju atvinnustarfsemi leið.

Það sem að baki þessa frumvarps liggur er einfaldlega að þegar þessi atvinnustarfsemi er komin af stað eins og nú er, verðum við komin með klár lög þannig að enginn ágreiningur verði. Ef allt gengur eftir og óskir og vonir manna rætast og hugmyndir og spár um það sem þarna gerist, þá getur verið um að ræða talsvert mikinn afla sem verið er að draga úr sjónum sem gerir það að verkum að þessi fyrirtæki fara að hafa alvörutekjur.

Er eitthvað óeðlilegt við það að þessi fyrirtæki sem eru að veiða fisk, (Gripið fram í.) selja fisk, lúti þá nákvæmlega sambærilegum reglum og önnur atvinnustarfsemi? Vegna þess að við viljum nefnilega, öfugt við það sem hv. þm. Sigurjón Þórðarson vill, laða að t.d. útlendinga og leyfa þeim að njóta þess að fiska hérna, hafa af því skemmtun og afþreyingu, og að (Forseti hringir.) fyrirtæki í ferðaþjónustu geti haft af því tekjur. Þetta er ekki flóknara en það.