133. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2007.

stjórn fiskveiða.

432. mál
[11:54]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (F):

Virðulegi forseti. Þetta frumvarp er lagt fram til þess að koma með frekari tillögur um það hvaða löggjöf eigi að vera utan um siglingar og veiðar ferðamanna, innlendra sem erlendra. Ég hef miklar efasemdir um að það sé rétt að fella þessa þróun undir löggjöf um atvinnustarfsemi og sérstaklega um stjórn fiskveiða eða sjávarútveg vegna þeirra ströngu laga sem gilda um þá atvinnustarfsemi, ekki hvað síst vegna þess að réttindi sem menn þurfa að afla sér, sem á annað borð er gert skylt að starfa innan kerfisins, liggja ekki á lausu, ríkið hefur þau ekki tiltæk fyrir þá sem gert er skylt að starfa eftir þeim reglum heldur verða menn að afla sér þeirra á einkamarkaði af þeim sem hafa þau í dag, þegar þeim sýnist, á því verði sem þeim sýnist. Þróun í þeirri atvinnugrein sem frumvarpið tekur á eru því settar ákaflega þröngar skorður, en það er rekstur og útleiga á bátum sem eru fyrst og fremst skemmtibátar fyrir fólk sem er í fríum og nýtur náttúrunnar og útiveru en er ekki í atvinnustarfsemi. Það er grundvöllurinn fyrir því að það er verið að þróa eitt afbrigði eða nýja tegund af ferðaþjónustu og ég hef miklar efasemdir um að það sé rétt að fella umgjörð um hana undir löggjöf um stjórn fiskveiða. Meðal annars vegna þess sem fram hefur komið áður í umræðunni að það er mikill kostnaðarmunur á starfseminni eftir því hvort hún fellur undir þá atvinnu og þau skilyrði sem mönnum er gert að uppfylla þar eða sem tómstunda- eða ferðaþjónusta.

Það er líka munur á því hvaða réttindi og skyldur menn þurfa að uppfylla til þess að stjórna þessum bátum. Ég vara við því að menn fari að negla þennan vaxtarbrodd í ferðaþjónustu undir löggjöfina um stjórn fiskveiða. Það er sjálfsagt að skoða málið í þingnefnd og fá fram skýringar ráðherra á því hvers vegna hann leggur þetta til en ég held að nefndin verði að skoða mjög vandlega sjónarmið þeirra sem eru í þessari atvinnugrein og möguleika á að atvinnugreinin þurfi að þróast áfram og verða öflugri frá því sem nú er þannig að þetta verði sannkallaður vaxtarbroddur en ekki vaxtarbroddur sem verði kæfður í fæðingu vegna einhverrar þráar eða þarfar til þess að loka möguleikum manna til að fara á sjó öðruvísi en eftir þeim reglum sem menn hafa sett sér um veiðar í atvinnuskyni.

Ég held að það sé eðlilegast að líta á umgjörð fyrir þessa starfsemi út frá hinu sjónarmiðinu, að þetta séu tómstundaveiðar eða tómstundastarfsemi, því að það er mjög mismunandi hvaða veiðar falla undir í þessum tilvikum, það fer eftir þeim mönnum sem eru um borð hverju sinni. Sumir vilja ekki veiða neitt, aðrir hafa gaman af að veiða nokkra fiska og enn aðrir hafa gaman af því að veiða marga fiska og flaka þá og taka þá með sér heim. Ég held að hið eðlilega í þessu sé að setja reglur um tómstundaveiðarnar, kannski frekari reglur um þær en við höfum í dag. Það er út af fyrir sig rétt að ef það verður mikill vöxtur í þessu og nokkur þúsund manns á ári hverju stunda þetta, að fara til sjós á bátum sem þeir eiga ekki sjálfir og sumir veiða og þá geta menn auðvitað veitt töluvert magn. Ef menn veiða mikið er eðlilegt að menn setji einhverjar reglur um það og væntanlega er skynsamlegast að setja þá reglur um eitthvert visst magn á mann eða eitthvað slíkt, hugsanlega reglur um veiðarfæri sem menn mega nota. Mér finnst t.d. heldur þröngt að afmarka það bara við handsnúnar handfærarúllur, ég held að menn verði að gefa mönnum kost á að nota sjóstöng sem dæmi eða jafnvel eitthvert þróaðra veiðarfæri, en að takmarkanir verði settar um það magn sem menn megi draga úr sjó og gera sér mat úr.

Það er hugsanlegt að það þurfi að gefa fyrirtækjum sem standa fyrir sjóstangveiðikeppni einhverja möguleika á að selja aflann en ég hélt að það væri búið að leysa það mál í ráðuneytinu þannig að ég á ekki von á að það sé neitt vandamál, ég held að það liggi fyrir sæmileg niðurstaða í þeim efnum.

Ég vara því heldur við því að fara inn á þessar brautir. Ég held að það eigi frekar að nálgast málið út frá ferðaþjónustunni eða tómstundagamninu og setja þá nauðsynlegar reglur út frá þeim sjónarmiðum fremur en að negla menn inn í kvótakerfið og gera menn bundna af þeim frumskógi af lögum og reglum sem þar gilda.