133. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2007.

stjórn fiskveiða.

432. mál
[12:25]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Herra forseti. Við ræddum í morgun um hlutskipti hæstv. sjávarútvegsráðherra. Hvað það væri ömurlegt að koma frá byggð sem hefði farið mjög illa úr kvótakerfinu og þar sem ekki hefði allt gengið sem skyldi. Hæstv. sjávarútvegsráðherra virðist ekki geta hugsað út fyrir kvótakerfið. Það sem er kannski sárast og furðulegast að horfa upp á er að fyrir hverja einustu kosningar hefur hann lofað að breyta kerfinu. En hvað hefur gerst? Hann hefur alltaf breytt því til hins verra og reynt að festa það æ betur í sessi. Það sem er líka mjög vafasamt og ég vil segja óheiðarlegt af hæstv. sjávarútvegsráðherra er að fyrir síðustu kosningar ætlaði hann einum stjórnmálaflokki að vilja eyðileggja sóknardagakerfið og skrifaði um það á heimasíðu sinni. Hvað gerðist? Eftir kosningar tók hann sjálfur upp á því að setja trillurnar í kvóta. En hann lætur það ekki nægja heldur kemur hann núna með einhverja skemmtibáta í kvótakerfið.

Því eru engin takmörk sett sem Sjálfstæðisflokkurinn tekur upp á. Það er eins og ekki sé hægt að hugsa sér stjórn fiskveiða án þess að vera með þennan kvóta sem engu hefur skilað þjóðinni nema tjóni. Það er undarlegt að horfa upp á hæstv. ráðherra í umræðunni um þessi mál og svo þegar hann kemur og reynir að rökstyðja mál sitt og maður segist ekki skilja það sem hann hafi fram að færa, m.a. vegna þess að hann vitnar í reglur sem hann setur sjálfur, það eru rökin fyrir vitleysunni, þá sakar hann menn um að skilja ekki rökin. En það er algjörlega óskiljanlegt hvers vegna halda eigi áfram með kerfi sem gengur ekki upp. Og í stað þess að leggja málefnaleg rök í umræðuna segir hann að menn séu með tappa í eyrunum. Maður fer að spá í framhaldinu hvað sé á milli eyrna manna sem tala með þessum hætti. Að vitna í reglur sem þeir setja sjálfir og í lög sem hafa ekki gengið upp og finna eitthvert réttlæti í því að fara að setja minnstu trillurnar í kvóta en lætur sér það ekki nægja heldur fer í skemmtibátana líka og leggur stein í götu þeirrar atvinnugreinar sem er verið að byggja upp. Það er búið að svipta þessi byggðarlög réttinum til að sækja sjóinn. Menn hafa reynt að bjarga sér, leigja til sín aflaheimildir, eins og ég minntist á, og vitnaði til útgerðarmanns á Norðurlandi sem sagði að það væri ekki gæfulegt að ætla að vinna í því kerfi sem stjórnarflokkarnir hafa skammtað þeim og valið var að halda áfram að reyna að þrauka og steypa sér í enn meiri skuldir eða þá að hætta þessu, flytja í blokk í Reykjavík, eins og útgerðarmaðurinn orðaði það, og skilja eftir verðlausa eign. Þetta er byggðastefnan. Þetta er stefna hæstv. sjávarútvegsráðherra. Ekki nóg með að hann hafi sett skemmtibátana í kvóta heldur hafa stjórnarflokkarnir líka verið í því að svipta bændur réttinum til að nýta eignarlönd sín.

Við höfum farið í gegnum það að Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn hafa í raun svipt bændur útræðisréttinum og líka réttinum til að nýta það land sem þeir eiga svo sannarlega út í sjó. Þetta gengur svo langt, eins og ég hef minnst á áður í ræðum mínum, að meira að segja er ólögráða börnum bannað að leggja línu í fjörur landsins vegna þess að það getur raskað kvótakerfinu sem hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur alltaf sagt fyrir hverjar einustu kosningar að hann vilji breyta. Síðan hafa efndirnar verið þær að verið er að gera vont kerfi enn verra. Þetta er mjög alvarlegt sérstaklega í ljósi þess að kerfið gengur ekki upp líffræðilega. Ljóst er að fiskimið eru staðbundin og það eru aðrir þættir en veiðar mannsins sem ráða því hver afkoma, vöxtur og viðgangur fiskstofna er, m.a. að hvalir og fuglar himinsins taka 10–20 sinnum meira en við tökum úr hafinu af sjávarfangi. Síðan þegar menn hafa þær staðreyndir fyrir framan sig er farið að kroppa í örlitla smugu og reynt að loka henni, reynt að loka því þegar fólk er að reyna að bjarga sér bara vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn er kvótaflokkur. Það á að vernda kerfið. Þeim er nákvæmlega sama um fólkið, eins og fram kom í umræðunni í dag. Þótt fólkið fari með 70% af tekjum sínum í að borga leigu til einhverra sem eru handhafar auðlinda þjóðarinnar, eins og kerfið er nú skipað, þá er þeim nákvæmlega sama og alveg sama um réttlæti í þessu og maður furðar sig á því hvað á að ganga langt.

Það verður að segja eins og er að hæstv. sjávarútvegsráðherra getur verið slunginn stjórnmálamaður þótt hann sé ekki réttlátur, hann er mjög óréttlátur og hann er mjög vondur við byggðarlögin. Það sér fólk ef það lítur yfir tölur um mannfjölda á Vestfjörðum og víðar, að hann reynir að dreifa athyglinni frá óstjórninni hér heima með því að fara að ræða fiskveiðistjórn fyrir utan 200 mílurnar og reynir að beina athyglinni að einhverjum sjóræningjaveiðum á alþjóðlegu hafsvæði. Ég hefði talið miklu nær að hæstv. sjávarútvegsráðherra beindi athygli sinni að því að leysa úr þeim vandamálum sem uppi eru, m.a. hvað kjör sjómanna hafa versnað og það er engin spurning um það að þeir þurfi að taka þátt í kvótaleigu. Ef það heitir ekki kvótaleiga er til annars konar kerfi sem er sambærilegt, að fiskur er seldur í föstum samningum sem eru langt undir markaðsverði. Það er í rauninni annar angi af kerfinu, að í stað þess að leigan svokallaða skerði tekjur þeirra er markaðsvirði fisksins miklu hærra en það raunverulega verðmæti sem hlutur sjómannsins er reiknaður út frá. Þetta er það kerfi sem Sjálfstæðisflokkurinn býður upp á. Maður er gáttaður á þessu.

Þegar við í Frjálslynda flokknum leggjum fram tillögur til þess að aflétta þessari ofstjórn sem hefur engu skilað, nákvæmlega engu, er jafnvel reynt að snúa út úr þeim eins og hæstv. ráðherra reyndi að verjast í dag. Hvað er svarið hjá Sjálfstæðisflokknum? Það er meira og stærra eftirlitskerfi til að reyna að halda öllum innan marka þessa ömurlega kerfis og passa upp á að ekki verði farið að einhverju leyti á svig við það. Upphæðin sem fer í að fylgjast með sjómönnum landsins er farin að nálgast einn milljarð. Þetta fer að slaga upp í þá upphæð sem fer í að reka ríkislögreglustjóraembættið. Maður veltir fyrir sér hvort þetta séu áherslurnar hjá Sjálfstæðisflokknum að fylgjast svo með sjómönnum landsins, það fer miklu meiri kraftur í þetta en að fylgjast með öllum samkeppnisbrotum og efnahagsbrotum þjóðarinnar. En það er ástæða fyrir þessu, það er vegna þess að LÍÚ er inn undir hjá kvótaflokknum, Sjálfstæðisflokknum, og stjórnar honum nánast. Frumvarpið snýr akkúrat ekkert að hag almenning. Það er verið að leggja stein í götu þeirra sem ætla að bjarga sér. Ef konan sem ég nefndi í ræðu minni í utandagskrárumræðu í dag ætlaði að fara út úr þessum erfiða rekstri og fara í annan rekstur, ferðamannaþjónustuna, þá er henni gert að leigja aflaheimildir mjög dýru verði. Það er enginn afsláttur á því, hvað þá ef hún ætlaði að kaupa sér kvóta. Það er því alveg ljóst að frumvarpið er ekki til bóta fyrir þennan atvinnuveg, langt í frá.

Reiknikúnstirnar sem kerfið er byggt upp á gengur ekki upp. Hrefnan ein tekur talsvert meira magn en allur afli Íslendinga af Íslandsmiðum. Í staðinn fyrir að slaka á þessum reglum, slaka á eftirlitskostnaðinum og nota peningana í eitthvað þarfara, t.d. til rannsókna, þá er með frumvarpinu reynt að herða snöruna utan um byggðirnar og lagður steinn í götu þeirra. Þetta er fáheyrt og mjög ósmekklegt hjá hæstv. ráðherra vegna þess að fyrir síðustu kosningar ætlaði hann Samfylkingunni að leggja af sóknardagakerfið. Síðan sitjum við uppi með það að það er hæstv. ráðherra sem er ekki einungis búinn að leggja af sóknardagakerfið heldur er hann líka að setja skemmtibáta og túrisma í þetta kerfi sitt. Þetta er alveg stórundarlegt. Kerfi sem hefur reynst afar illa en það má ekki hnika því.

Maður veltir fyrir sér framtíð kerfisins, framtíð sjávarútvegs á Íslandi þegar menn hafa í raun girt fyrir alla nýliðun. Það sést t.d. best á aðsókn í skóla sem sinna menntun á sviði sjávarútvegs. Það er ekki einungis að dregið hafi úr aðsókn heldur hefur Sjálfstæðisflokkurinn líka lagt af skóla sem eru í þessari atvinnugrein, t.d. eins og Fiskvinnsluskólann. Ég lýsi furðu yfir þessari stefnu og forgangsröðun hjá hæstv. ráðherra sem kemur af landsbyggðinni, að koma með enn eitt frumvarpið sem heftir atvinnugreinina í stað þess að auka frelsið. Mér finnst svo ömurlegt að verða vitni að þessu að það væri fróðlegt að heyra viðbrögð hv. formanns sjávarútvegsnefndar, Guðjóns Hjörleifssonar, við frumvarpinu, hvort honum ofbjóði ekki þau vinnubrögð sem hér er boðið upp á. Það væri mjög þarft að fá það í umræðuna hvort þetta sé endilega það sem við þurfum til þess að komast út úr ógöngunum sem sjávarútvegurinn er vissulega í.

Við vitum að skuldir sjávarútvegsins nálgast 300 milljarða ísl. kr. og afli upp úr sjó er í kringum 70. Þetta eru gríðarháar upphæðir. Heildarútflutningur sjávarafurða er eitthvað í kringum 130 milljarða. Það sem sjávarútvegurinn skuldar er því margföld ársvelta greinarinnar. Í hverju eru eignir hennar fólgnar? Ekki í nýjum skipum eða nýjum atvinnutækjum. Það er sjaldnast. Það er mögulega í uppsjávargreininni en ekki hvað varðar flotann því hann er að mestu orðinn gamall. Helsti bisnessinn og helsti arðurinn í greininni er að leigja frá sér. Segja má að leiguliðinn sé arðsamasti tekjuliður stórútgerðarinnar í landinu. Nú virðist eins og búið sé að mergsjúga leiguliðana. Það hefur komið fram í umræðunni og hæstv. sjávarútvegsráðherra viðurkennir það, að það á að koma ferðaþjónustunni í þetta og fara að mergsjúga hana líka með því að láta hana taka þátt í leigunni. Hvað verður næst hjá Sjálfstæðisflokknum? Hvað á að leigja næst, hvaða gæði? Maður spyr sig, sérstaklega í ljósi þess að kerfið hefur ekki skilað neinu, það hefur skilað okkur tjóni en samt er haldið áfram með það. En til að dreifa athyglinni fara menn í ýmsar æfingar, eins og áður segir, fara í að stjórna fiskveiðum í úthöfunum. Ég tel að hæstv. ráðherra ætti miklu frekar að líta sér nær því verkefnin eru svo sannarlega nær, herra forseti.