133. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2007.

stjórn fiskveiða.

432. mál
[12:40]
Hlusta

Guðjón Hjörleifsson (S):

Virðulegi forseti. Við erum að ræða um frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða þar sem veiðar í atvinnuskyni eru skilgreindar enn betur.

Viðaukinn sem settur verður í lögin miðast við að það teljist til veiða í atvinnuskyni ef eigandi eða útgerð báts tekur gjald af þeim sem nýta bátinn til veiða.

Hér er einungis verið að skerpa á og taka af allan vafa sem verið hefur um hvað teljist veiðar í atvinnuskyni. Það er eðlilegt að eigandi eða útgerð báts sem tekur gjald af þeim sem stunda veiðar á bát þurfi að hafa leyfi til að veiða í atvinnuskyni og nægilegar aflaheimildir í þeim kvótabundnu tegundum sem þeir veiða og hafa tekjur af.

Samkvæmt 6. gr. laganna um stjórn fiskveiða er heimilt „án sérstaks leyfis að stunda fiskveiðar í tómstundum til eigin neyslu. Slíkar veiðar er einungis heimilt að stunda með handfærum án sjálfvirknibúnaðar. Afla, sem veiddur er samkvæmt heimild í þessari málsgrein, er óheimilt að selja eða fénýta á annan hátt“.

Það verður engin breyting á þessu samkvæmt frumvarpinu. Við horfum til mikilla breytinga og jákvæðrar sóknar fyrir ferðaþjónustuna en það þarf samt sem áður að samrýmast því fiskveiðistjórnarkerfi sem við erum í. Núverandi fiskveiðistjórnarkerfi miðast við að hafa yfirsýn yfir þann afla sem veiddur er og stjórna fiskveiðum.

Virðulegi forseti. Það er jákvætt hjá þeim einstaklingum sem hafa bætt við einum möguleika enn til að gera Ísland að spennandi ferðamannalandi. Sumir erlendra gesta koma nær eingöngu til landsins til að fara á handfæraveiðar eða veiða á stöng sér til afþreyingar. Þarna eru mikil sóknarfæri og viðbúið að afli muni aukast töluvert.

Þetta eru ekki stórar veiðitölur í dag en þær eru að aukast og hvað sem öðru líður er ljóst að umræddir bátar eru nýttir í atvinnuskyni og eru fiskveiðar þáttur í þeirri nýtingu. Þeir sem stunda þessi viðskipti hljóta að meta það hvort hagkvæmara sé að gera út bátinn sinn eða tengja útgerð sína ferðaþjónustu. Ég fagna þeim frumkvöðlum sem koma inn í þennan valmöguleika fyrir ferðamanninn.

Í frumvarpinu er sjávarútvegsráðherra einnig heimilt að setja sérstakar reglur um þessa báta hvað varðar skyldur skipstjóra og tilkynningar og skýrsluskil til stjórnvalda varðandi veiðar og afla en þess eru dæmi að þessir bátar hafa farið til veiða án þess um borð sé skipstjóri. Það er því nauðsynlegt að hafa þessa heimild til staðar.

Hv. þm. Jóhann Ársælsson kvartaði áðan yfir því að ekki hefði verið haldinn fundur í sjávarútvegsnefnd. Örugglega eru fleiri nefndarmenn búnir að kvarta. Ég held að skýringin á því að ekki er komið frumvarp fyrir nefndina sé sú að hér var málþóf í RÚV-frumvarpinu í 10–12 daga sem var stjórnað af Samfylkingunni. Ég er búinn að bíða spenntur eftir að fá að taka inn þetta frumvarp og fleiri. Ég veit að Jóhann Ársælsson mun hliðra til og við munum halda eins marga fundi og þarf í sjávarútvegsnefnd til að ljúka þeim málum sem verða tekin fyrir nefndina.