133. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2007.

stjórn fiskveiða.

432. mál
[12:46]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Nú hafa hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar verið þekktir fyrir mikinn áhuga á lundaveiðum. Það væri fróðlegt að fá að heyra hjá hv. þingmanni hvort hann telji að lundaveiðin í Eyjum yrði t.d. meira spennandi ef hún yrði sett í kvóta. Svo er að heyra hér sem þetta sé alvörukerfi og hafi skilað gríðarlega miklu og geri jafnvel veiðarnar enn þá meira spennandi.

Ég vil aðeins ræða þessa trú hv. þingmanns á því að þetta sé alvörukerfi. Hvað á hann við? Á hann við að þetta sé alvarlegt kerfi vegna þess að það hefur komið byggðum landsins mjög illa, m.a. Vestmannaeyjum? Þetta hefur komið byggðunum afar illa, því verður ekkert á móti mælt. Hvað á hann við þegar hann segir að þetta sé alvörukerfi?

Ég segi að þetta kerfi hafi skaðað þjóðina alveg gríðarlega mikið og valdið sóun, brottkasti, og svo talar maðurinn hér, hv. þingmaður, eins og þetta sé eitthvað „alvöru“ og að við eigum að halda í þetta. Þetta er fáránlegt kerfi sem hefur hvergi gengið upp. Hver er uppbyggingin í því? Við veiðum helmingi minna af þorski en við gerðum fyrir daga kerfisins.

Að segja það hér að þetta sé alvörukerfi er með ólíkindum. Það má vera, ég ætla ekkert að draga það í efa, að hv. þingmanni þyki meira spennandi að vera í kvótaveiðum. Þá væri fróðlegt að heyra hvort hann vildi taka það upp við annan veiðiskap einnig.