133. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2007.

stjórn fiskveiða.

432. mál
[12:52]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að fara að hnotabítast við hv. formann nefndarinnar um málið núna vegna þess að það getur bara sett stífni í það. Hann hefur alveg átt það til að taka tillit til þess þegar skynsamleg rök hafa komið fram fyrir því að mál séu vitlaus og eigi ekki að afgreiðast út úr nefndinni. Ég ætla ekki að spilla því ef við getum komist að samkomulagi um það í framhaldinu.

Ég held að það sé alveg ástæða til að skoða þetta mál mjög vandlega. Þarna eru á ferðinni hlutir sem geta valdið verulegum vandræðum fyrir þá sem eru að reyna að bjarga sér í ferðaþjónustunni og geta líka aukið vandræði fólks sem hefur haft gaman af því að fara til sjós, veiða í soðið, fara út á sjó með kunningjum sínum og vinum. Ég hef ekki séð að það hafi skapað nein sérstök vandamál.

Þeir einu sem virðast missa svefn yfir því eru á skrifstofu LÍÚ. Þeir hafa verið valdamiklir í þessu samfélagi og mig grunar að ekki komi afdráttarlaust svar frá hæstv. sjávarútvegsráðherra hér á eftir um að ferðaþjónustan hafi kallað eftir þessari lagasetningu, að hún hafi beðið um að þessi leið yrði opnuð til að halda áfram þeirri þjónustu sem þarna er bryddað upp á. Mig grunar að það sé alls ekki þannig.

Þess vegna held ég að það sé full ástæða fyrir formann nefndarinnar til að velta þessu máli vel fyrir sér. Við erum sannarlega tilbúnir til að fara saman með honum yfir þetta og skoða það vandlega og niðurstaðan verður væntanlega sú að þetta mál líti ekki dagsins ljós með þeim hætti sem það er hér lagt fram.