133. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2007.

stjórn fiskveiða.

432. mál
[12:54]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Herra forseti. Í umræðunni um þetta mál kom fram að það væri nauðsynlegt að festa þessa skemmtibáta í þessu kerfi til festa „alvörukerfið“ í sessi. Það mátti skilja af orðum hv. þm. Guðjóns Hjörleifssonar að þetta kerfi væri alvörukerfi og ekki nóg með það, heldur væri það líka viðurkennt á heimsvísu.

Nú skulum við aðeins velta fyrir okkur hverjir hafi viðurkennt þetta kerfi. Það eru m.a. þeir sem hefur verið boðið hingað til lands af Hafró og orðið jafnvel uppvísir að svindli í vísindaheiminum. Einn þeirra er Ransom Myers sem kom hingað og átti hluta að vinnu við skýrslu þar sem allir fiskstofnar heimsins voru sagðir mundu nánast þurrkast út árið 2048. Þetta er einn af þeim sem hefur „viðurkennt þetta íslenska kerfi“ og verið boðið hingað sérstaklega.

Við skulum aðeins velta fyrir okkur hvar kvótakerfi hafa gengið upp. Frá því að þessi kerfi voru tekin í notkun hér við Norður-Atlantshafið hefur botnfisksafli alls staðar dregist saman. Hvers vegna er það? Það er vegna þess að þetta kerfi byggir á líffræði sem gengur þvert á viðtekin lögmál vistfræðinnar.

Það hefur komið fram og verið viðurkennt hér, m.a. af hæstv. sjávarútvegsráðherra, að það er ekkert samband á milli nýliðunar og hrygningarstofns. Það er líka staðreynd að afrán mannsins af t.d. þorskstofninum er miklum mun minna en afrán annarra tegunda og jafnvel þorsksins sjálfs, sjálfsráns hans.

Svo segir hv. þingmaður að þetta sé viðurkennt á alþjóðavísu. Það má miklu frekar segja að það hafi sannast að þar sem þetta kerfi hefur verið reynt hafi það ekki gengið eftir.

Til eru staðir þar sem menn nota ekki þetta kerfi, að stjórna fyrir fram hvað kemur upp úr hafinu, m.a. Færeyjar. Þar er sóknardagakerfið sem hv. þm. Guðjón Hjörleifsson dásamaði í Vestmannaeyjum þegar hann var að ræða um lundann. Það gafst afskaplega vel, lundastofninn í Eyjum er góður. Samt sem áður má ekki yfirfæra það kerfi á aðrar tegundir í náttúrunni vegna þess að þetta er „alvörukerfi“. Hvað er svona alvöru við það? Það er einfaldlega það að hægt er að leigja úr því. Þetta snýst allt um kvóta. Þetta er bara svona peningakerfi. Þetta snýst ekkert um það að byggja upp þorskstofninn.

Engin rök hafa verið borin hér inn í umræðuna þar sem menn hafa getað bent á að þetta kerfi hafi gefist vel til að byggja upp þjóðarhag. Menn reyna að forðast alla umræðu um kerfið með því að drepa henni á dreif, tala jafnvel um stjórn fiskveiða fyrir utan 200 mílurnar og fara í ýmsar æfingar.

En það er ekki bara í Færeyjum sem menn hafa reynt annars konar stýringu. Það er víða annars staðar þar sem menn hafa ekki farið eftir þeim heildarafla sem hefur verið gefinn út. Og þar er enn þá að fiskast, og jafnmikið og áður. Það má benda á að það er ekki einungis hér fyrir austan okkur, heldur líka fyrir norðan, í Barentshafinu, þar sem veidd eru 100 þús. og jafnvel 200 þús. tonn árlega umfram ráðlagða veiði.

Hvað gerist? Það gerist ekki neitt. Það koma aflahrotur og síðan dregur úr afla þannig að þetta gengur svona sitt á hvað. Það er augljóst að það sem við tökum úr hafinu skiptir ekki öllu máli. Það sem skiptir öllu máli fyrir þá flokka sem ráða hér er að halda kerfinu, peningakerfinu, jafnvel þótt það þýði að heimabæir þeirra leggist í eyði, hvort sem það eru Vestmannaeyjar eða Bolungarvík. Það er nákvæmlega sama. Og þeim er nákvæmlega sama þó að sjómenn á þessum stöðum þurfi að borga 70% af aflaverðmætinu í leigu. Þeim er nákvæmlega sama um það. Það er bara verið að passa kerfið. Ef það kemur skemmtibátur á líka að setja hann inn í kerfið. Þetta snýst allt um það.

Það er með ólíkindum að þessir menn séu hér sem fulltrúar þjóðarinnar. Það eru fulltrúar kvótans sem tala hér. Það er varla hægt að hafa hér málefnalegar viðræður við þá, þegar maður reynir það hefur hæstv. sjávarútvegsráðherra þann háttinn á að reyna að buna út úr sér eins hratt og hann getur einhverjum lagabókstöfum. Ef það dugar honum ekki les hann upp úr reglugerðum sem hann er nýbúinn að setja sjálfur. Það eru rökin sem hann færir inn í umræðuna en ekkert annað.

Þetta kerfi hefur gengið illa. Það hefur valdið sárindum og búseturöskun og það særir réttlætiskennd þjóðarinnar — en ekki Sjálfstæðisflokksins. Hvernig stendur á því? (JGunn: Það er ekki réttlætiskennd þar.) Það er rétt að spyrja að því, herra forseti, hvort þar þrífist réttlætiskennd eða hvort mönnum sé alveg sama þótt eignir fólks í t.d. Vestmannaeyjum séu gerðar verðlausar. Fasteignaverð hefur víða lækkað út af þessu kerfi. Það er engin nýliðun. Það kemst enginn inn í atvinnugreinina — og er Sjálfstæðisflokknum nákvæmlega sama um þetta?

Það sem sjálfstæðismenn óttast um er hagur kvótans og kannski lánastofnana. Ég ætla að ráðleggja sjálfstæðismönnum að slaka aðeins á varðandi það, þeir geta aðeins gefið eftir. Það er hægt að sleppa þessu frumvarpi. Það er ekki lífsins nauðsynlegt að setja þessa minnstu báta inn í þetta vonda kerfi. Það er vel hægt að komast af án þess. Það mun ekki raska ró bankastjóranna sem höluðu í hagnað 160 milljarða á síðasta ári.

Það er borð fyrir báru að breyta þessu kerfi. Við þurfum ekkert að óttast. Það eru svo mörg tækifæri í því. Það eru bara svo mörg tækifæri í því að minnka sóunina og ná miklu meira út úr auðlindinni en það er eins og að sjálfstæðismenn óttist þessar breytingar.

Við í Frjálslynda flokknum lítum með bjartsýni til þess að fá að takast á við það verkefni að breyta þessu kerfi. Það er spennandi. Það er að mörgu leyti auðvelt líka að breyta því og ég er sannfærður um að það verður betra fyrir alla sem starfa í atvinnugreininni, hvort sem þeir vinna hjá Samherja, Guðmundi Kristjánssyni eða trilluútgerðinni fyrir norðan sem þarf að leigja til sín aflaheimildir, það er miklu betra að starfa í grein þar sem sátt og friður ríkir. Það hefði ég talið. Það eru svo miklu meiri tækifæri.

Það er bara vont fyrir þá sem hugsa um að selja sig út úr greininni. Ég held að það sé komið á það stig núna að það sé búið að veðsetja þetta allt í topp. Menn verða að fara að leita leiða til að komast út úr þessu. Þegar 300 milljarðar eru komnir í veðsetningu og megnið af þeim er í aflaheimildum hljóta menn að sjá að þeir eru búnir að mjólka þetta eins og hægt er. Það er ekki hægt að ná miklu meira út úr þessu.

Að vísu er verið að leita hér að matarholum í túrismanum en kannski er ekki hægt að mjatla mikið inn með þessu frumvarpi fyrir vinina í LÍÚ. Við eigum miklu frekar að reyna að fá LÍÚ með okkur í lið til að breyta þessu. Það þarf að breyta þessu. Þetta kerfi gengur ekki upp. Það þýðir ekkert að vera alltaf með einhvern fýlusvip framan í þjóðina og bjóða upp á þetta óréttlæti í stað þess að bjóða upp á tækifæri til að komast út úr þessu. Þetta gengur ekki svona lengur.

Kannski er vert að spyrja hv. þingmann: Hvers vegna er greinin svona skuldug ef það er svona mikið halað inn, 10 milljarðar á ári í einhverja kvótaleigu? Hvað verður um þessa peninga? Hefur hv. þm. Guðjón Hjörleifsson áhyggjur af því? Nei, eflaust hefur hann það ekki.

Ég skora hér í lokin á hv. þingmann að velta fyrir sér hvert þessir fjármunir fari. Nýtast þeir sjávarútveginum eða nýtast þeir honum ekki? Er hægt að fara út úr greininni? Hvers vegna er greinin svona gríðarlega skuldug ef aðilar innan hennar fá 10 milljarða í tekjur af leigu aflaheimilda?

Herra forseti. Ég sé að tíma mínum er lokið. Það væri vert að ræða þetta lengur, eitt mikilvægasta mál síðari tíma (Forseti hringir.) og reyna að tína fram einhver rök hér frá hæstv. sjávarútvegsráðherra, málefnaleg rök fyrir því að (Forseti hringir.) setja skemmtibáta í kvótakerfið.