133. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2007.

stjórn fiskveiða.

432. mál
[14:16]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að megintilgangur þessa frumvarps er að koma fótum undir nýja atvinnugrein. Það er þannig í dag að við getum sagt að hún standi á vissan hátt á brauðfótum svo ég haldi áfram líkingunni, vegna þess að hún er, má segja, svolítið á milli skips og bryggju. Hér er ekki um að ræða hefðbundar tómstundaveiðar eins og hv. þingmaður stundar. Ekki er heldur um að ræða hefðbundnar atvinnuveiðar sem gerðar eru margs konar kröfur til, m.a. um skráningu mannskaps með t.d. skipstjórnarréttindi o.s.frv. Verið er að opna leið fyrir báta sem sérstaklega háttar til um. Þess vegna er sú aðferð valin að reyna að opna á það að við búum til sérstakan flokk skipa og möguleika á því að þessir bátar geti lotið ákveðnum reglum sem atvinnutæki sem þeir sannarlega eru, þeir eru auðvitað atvinnutæki. Við vitum hins vegar að forsendan fyrir því að það takist er að aðgangurinn að þessum bátum sé seldur. Mannskapurinn um borð er ekki endilega menn með skipstjórnarréttindi, þarna er ekki endilega um að ræða menn með vélstjórnarréttindi. Hins vegar lúta þessir bátar kröfum Siglingastofnunar um öryggi og þess háttar sem ég kann ekki skil á og kveðið er á um í öðrum lögum og reglugerðum en undir mig heyra. Þeir þurfa líka að uppfylla ákveðin skilyrði frá Fiskistofu um meðferð afla, því að hér er um að ræða afla sem á að selja til vinnslu í viðurkenndum fiskvinnsluhúsum og síðan til útflutnings eða sölu innan lands. Þessar reglur þurfa því að vera klárar.

Ef hv. þingmaður vill frekar fara þá leið sem hann er að tala um óttast ég samt sem áður að það gæti leitt til þess að þetta yrði þyngra í vöfum. Kjarni málsins er bara sá að menn eru að reyna að búa til umhverfi fyrir atvinnugrein sem ekki hefur verið til staðar á Íslandi áður.