133. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2007.

stjórn fiskveiða.

432. mál
[14:20]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé öllum orðið ljóst, nema kannski innvígðum og innmúruðum sjálfstæðismönnum, að hér er verið að leggja höft á nýja atvinnugrein. Það er gert með fagurgala um að verið sé að gefa slíkum atvinnufyrirtækjum kost á að fénýta afla.

Við skulum athuga hvað felst í frumvarpinu í raun og veru. Í því felst að verið er að setja þessa báta inn í það leigubrask og sölukerfi sem við höfum verið að ræða í dag, sem þýðir með öðrum orðum að verið er að gera 70% af aflaverðmætinu upptæk. Það er verið að færa þau til þeirra sem ráða yfir kvótanum, en auðvitað á þjóðin kvótann. Verið er að tryggja það með þessu frumvarpi að menn gjaldi keisaranum það sem keisarans er eða kvótaeigandanum það sem kvótaeigandans er. Málið snýst um þetta. Það snýst ekkert um að verið sé að opna einhverja leið eins og hæstv. sjávarútvegsráðherra segir. Hann hefur áður verið með fagurgala fyrir kosningar um að breyta eigi kerfinu til batnaðar en það hefur síðan verið svikið eftir kosningar.

Hér heyrum við talað um að það sé verið að greiða leið fyrir sprotafyrirtæki til að geta fénýtt afla. Það er ekki satt, það er verið að leggja höft á þessa atvinnugrein. Því verður ekkert á móti mælt. Sagan hræðir.