133. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2007.

stjórn fiskveiða.

432. mál
[14:22]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf):

Herra forseti. Ég kem upp í seinni ræðu minni í þessu máli af því að enn eru nokkur atriði óljós eftir andsvör og svör hæstv. sjávarútvegsráðherra sem voru með þeim hætti að ég held að rétt sé að velta málunum aðeins betur fyrir sér úr ræðupúltinu.

Í 1. gr. frumvarpsins segir að það teljist veiðar í atvinnuskyni ef eigandi eða útgerð báts tekur gjald af þeim sem nýta bátinn til veiða og hér hefur verið farið yfir hvað þetta þýðir. Nú vill svo til að í 4. gr. núgildandi laga um stjórn fiskveiða er skilgreining á því hvað eru veiðar í atvinnuskyni. Þar segir í 4. gr., með leyfi forseta:

„Enginn má stunda veiðar í atvinnuskyni við Ísland nema hafa fengið til þess almennt veiðileyfi.“

Forsendan er sem sagt sú að til að geta stundað veiðar í atvinnuskyni þarf að gefa út almennt veiðileyfi. Almenn veiðileyfi eru tvenns konar, annars vegar veiðileyfi með aflamarki, þ.e. í hinu hefðbundna stóra kvótakerfi, og hins vegar veiðileyfi með krókaaflamarki. Á sama fiskveiðiári getur skip aðeins haft eina gerð veiðileyfis. Með öðrum orðum, þegar búið er að setja þessa báta sem um ræðir inn í veiðar í atvinnuskyni fá þeir almennt veiðileyfi og annaðhvort fá þeir veiðileyfi í stóra kerfinu eða í krókaaflamarkskerfinu sem fleiri sækja væntanlega í. Það þýðir þá um leið samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða að þegar bátur er kominn með almennt veiðileyfi til að veiða eftir þeim lögum verður erfitt fyrir ráðherra að ætla að setja sérstakar skorður við því að bátur með almennt veiðileyfi megi veiða með rafmagnsrúllum svo dæmi sé tekið.

Í raun er ráðherra með boðuðum aðlögunarákvæðum sínum eða undanþágum fyrir þessa báta að segja okkur að slíkir bátar muni geta stundað almennar veiðar á almennum veiðileyfum í krókaaflamarki hér á landi án þess að hafa um borð skipstjóra með pungapróf eða 30 tonna réttindi.

Ég held að embættismenn í sjávarútvegsráðuneytinu eða hverjir það voru sem skrifuðu þetta frumvarp hafi kannski ekki hugsað þetta mál alla leið vegna þess að um leið og veittar eru ákveðnar undanþágur vegna einhverra sérstakra aðstæðna — en samt á að fella menn inn í hið almenna kerfi — lenda menn bara í tómu basli og vandræðum.

Sjávarútvegsnefnd þarf að skoða alveg sérstaklega hvað þetta getur þýtt og til hvers það getur leitt þegar þessir bátar eru skikkaðir í það að skilgreina sínar veiðar sem atvinnuveiðar. Það þýðir að þeir munu fá almennt veiðileyfi eftir laganna hljóðan annaðhvort í aflamarkinu eða krókaaflahámarkinu. Um það gilda lög og reglur og það er undarlegt ef ráðherra getur með reglugerð ákveðið að einhver hópur manna sem kemur utan frá eða uppfyllir einhver ákveðin skilyrði geti stundað þessa atvinnustarfsemi á Íslandi með lakari réttindi eða engin en Íslendingar sem ætla að stunda sömu iðju verða að hafa til þess full réttindi, fullt nám í skóla.

Ég er ekki viss um að menn hafi velt þessu fyrir sér alla leið en full ástæða er til þess. Ég kom upp í seinni ræðu mína til að hnykkja á þessum punkti, því að ég sé ekki betur ef maður les í gegnum lögin um stjórn fiskveiða en að þessir bátar hljóti að hafa sömu réttindi og aðrir í almennu veiðileyfi. Það hlýtur að verða mjög erfitt fyrir hæstv. sjávarútvegsráðherra að fara að setja einhverjar ákveðnar sérreglur og þurfa síðan að skilgreina á milli þess hver megi vera í hvaða hólfi og hver megi gera hvað og hver ekki. Ég er hræddur um að það geti orðið höfuðverkur fyrir umboðsmann Alþingis að skera úr ágreiningi sem gæti komið upp í því sambandi. Þetta eru atriði sem við í sjávarútvegsnefnd hljótum að skoða sérstaklega.