133. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2007.

stjórn fiskveiða.

459. mál
[14:38]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla að spyrja hæstv. ráðherra eftirfarandi spurninga vegna þess að ég held að það sé gott fyrir framhald umræðunnar að fá svörin.

Í fyrsta lagi vil ég spyrja hvað veldur því að hæstv. ráðherra kom með þetta mál núna þegar liðið er svona mjög á þetta fiskveiðiár og ekki farið að úthluta byggðakvótum. Lá ekki meira á en þetta að koma þeim fyrir með þeim hætti sem þurfti?

Í öðru lagi: Hér er talað um að heimilt verði að úthluta þessum kvótum til þriggja ára vegna uppbyggingar. Telur ráðherra ekki að það eigi við nánast í öllum tilfellum að það skipti máli fyrir uppbyggingu á svæði sem á í vanda af þessu tagi að hægt sé að hugsa það til lengri tíma þannig að það eigi þá við víðast hvar eða næstum alltaf?

Í þriðja lagi vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Er gert ráð fyrir og stefnir hæstv. ráðherra að nýta möguleika 10. gr. að fullu til byggðakvótaúthlutunar?

Í fjórða lagi langar mig að spyrja um sveitarfélögin og möguleika þeirra til þess að gera hlutina. Mér finnst af lestri frumvarpsins að ýmislegt geti bent til þess að hæstv. ráðherra ætli að ráða öllu en skilja sveitarfélögin eftir í því að gera óvinsælu hlutina, þ.e. að úthluta þessu. Ég spyr: Mega sveitarfélögin nýta sér möguleikana sem best hafa tekist, þ.e. að bjóða út þessar veiðiheimildir í samstarfi við útgerðarmenn með þeim hætti að þau geti aukið þá möguleika sem koma út úr þeim byggðakvóta sem þau fá í hendurnar? Eða er þetta kannski bara fjarvistarsönnun hæstv. ráðherra frá óvinsælu hlutunum? Hann hefur sett á (Forseti hringir.) stofn nefnd sem síðan á að afgreiða málið líka.