133. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2007.

stjórn fiskveiða.

459. mál
[14:43]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það vakir ekki fyrir þeim sem flytja þetta frumvarp að hamla möguleikum sveitarfélaga, það er í sjálfu sér ekkert verið að reyna að skerða þá möguleika sem sveitarfélögin hafa haft í þeim reglum sem nú eru í gildi að öðru leyti en því að tekið er tillit til ábendinga umboðsmanns Alþingis sem segir að nauðsynlegt sé varðandi úthlutun þessara veiðiheimilda að það þurfi að vera a.m.k. að einhverju leyti samræmdar reglur. Ég nefndi sem dæmi skráningu skipa. Það er ýmislegt annað þess háttar sem menn þurfa að taka tillit til sem umboðsmaður telur að sé nauðsynlegt að sé eins hvar sem slík úthlutun eigi sér stað. Það eru þessir hlutir sem við þurfum að setja skýrar reglur um. Það er síðan kveðið á um það í frumvarpinu að t.d. megi ekki framselja þennan byggðakvóta. Eins er mjög skýrt að aflanum skuli landað til vinnslu í byggðarlögunum svo fremi sem vinnslustöð sé til staðar.