133. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2007.

stjórn fiskveiða.

459. mál
[14:53]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að í langflestum tilvikum sé hægt að gera heilmikið gagn með þessum 12.000 þorskígildistonnum sem þarna er um að ræða. Eins og ég nefndi í ræðu minni áðan eru ýmis dæmi um að tekist hafi mjög vel til.

Þegar þetta er skoðað sérstaklega og farið er mjög vel yfir söguna í sambandi við byggðakvótann sjáum við að ýmis byggðarlög hafa fengið ágætan byggðakvóta í gegnum tíðina án þess að það hafi borið tilætlaðan árangur. Við sjáum því að þetta snýst ekki eingöngu um þessar heimildir. Svo sjáum við aftur á móti aðrar byggðir sem hafa jafnvel fengið minni heimildir en tekist að gera sér meiri verðmæti úr því. Þá þurfum við auðvitað að velta því fyrir okkur hvað við getum gert til að reyna að nýta þessar aflaheimildir sem allra best.

Ég er út af fyrir sig alveg sammála hv. þingmanni sem kemur kannski ekki mjög oft fyrir, eða a.m.k. er hann ekki oft sammála mér. Það sem ég sagði áðan var að ég vakti athygli á því að þessi 5% eru auðvitað ekki það sem ruggar eða hvolfir þessum bát varðandi fiskveiðistjórnarkerfið. Þess vegna finnst mér umræðan stundum dálítið ósanngjörn gagnvart byggðakvótanum, jafnumdeildur og hann nú er, þegar menn tala um að hann valdi einhverri meiri háttar tilfærslu eða skekki samkeppnisstöðu o.s.frv. Það finnst mér ákaflega ósanngjarnt ef maður skoðar þetta í því ljósi.

Það sem ég vildi einfaldlega segja er að ég tel að þarna séum við með tæki sem við eigum að geta spilað vel úr. Hér er um að ræða fiskveiðirétt sem við erum að nota, vegna þess að það er alveg rétt sem við vitum öll að það hefur orðið mikil tilfærsla frá ýmsum byggðarlögum milli byggðarlaga á landsbyggðinni og við erum að reyna að nýta þessi tonn.

Ég tel hins vegar, svo ég svari hv. þingmanni skýrt, að ég sé ekki að gera tillögu um að auka umfang þessa byggðakvóta. Ég er hins vegar að reyna að gera tillögu um að nýta hann betur en gert hefur verið.