133. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

26. mál
[16:53]
Hlusta

Flm. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég mótmæli því að ég sé kominn sérstaklega til gæta hagsmuna verslunarinnar. Það er auðvitað ekki svo. Það er bara einfaldlega alrangt hjá þingmanninum að þetta snúist aðeins um nokkur skref fyrir neytendur. Því fer víðs fjarri. Ég býðst til að taka þann ágæta hv. þm. Þuríði Backman, við getum byrjað í mínu kjördæmi Reykjavík, og fara með henni um svæðið. Við gætum þess vegna farið um höfuðborgarsvæðið. Ég get nefnt dæmi úr mínu hverfi. Ég bý í Grafarvogi og maður þarf að fara um langan veg ef maður býr í ákveðnum hluta hverfisins til að kaupa sér þessa vöru. Svo einfalt er það.

Menn hafa auðvitað rætt um þetta endalausa skutl fram og til baka. Það hefur verið talið sérstakt markmið af mörgum ástæðum að reyna að minnka það. Það er ekkert unnið með því að fólk þurfi að hafa mikið fyrir því að versla. Nákvæmlega ekki neitt.

Þá komum við að rannsóknunum, virðulegi forseti. Á Íslandi höfum við verið svo lánsöm að stunda rannsóknir ár eftir ár sem kallast ungt fólk og núna er komin ný rannsókn sem hefur skoðað það hvað greinir á milli. Hvaða hlutir skipta mestu máli til að halda unga fólkinu, ungmennunum okkar, frá áfengis- og vímuefnanotkun?

Þar vega nokkrir þættir langhæst. Í fyrsta lagi er það samveran með fjölskyldunni. Síðan að viðkomandi ungmenni sé í heilbrigðum tómstundum og sérstaklega íþróttum. Það er vísindalega sannað að minni líkur eru á því að þau börn sem stunda slíkt lendi í ógöngum. En síðan koma inn atriði eins og jafningjahópurinn og annað slíkt. Þar kemur mjög margt inn í.

Ég man þá tíð þegar höft voru meiri og minna aðgengi að áfengi. Menn voru að panta það með rútum og hvað það nú var. Ég man ekki eftir því að hér væri (Forseti hringir.) falleg áfengismenning. Það er ekki mín minning.