133. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

26. mál
[17:28]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil við 1. umr. þessa máls fá að segja nokkur orð um önnur atriði en þau sem snúa að hagsmunum neytenda varðandi aðgengi og verðlag á víni. Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson hefur mælt fyrir frumvarpi til laga um breytingu ýmissa lagaákvæða varðandi sölu áfengis og tóbaks. Við höfum, eins og fram kom í máli hv. þingmanns, rætt frumvarp af svipuðum toga áður án þess að það hafi verið afgreitt hér af þinginu.

Hæstv. forseti. Mín ósk og von til handa íslensku þjóðinni er að örlög þessa frumvarps verði þau sömu og fyrri frumvarpa, að það verði ekki afgreitt á þessu þingi og ekki á næstunni. Mér virðist sem ýmislegt sé að gerast í þjóðfélaginu, bæði hjá ungu fólki og fullorðnu, sem ætti að vekja okkur til umhugsunar og að fara að ráðum Lýðheilsustöðvar, landlæknisembættisins o.fl., sem eiga að gefa Alþingi leiðbeiningar til að móta stefnu í áfengis og fíknivarnamálum. Við á hinu háa Alþingi höfum mótað okkur heilbrigðisáætlun til næstu ára og erum langt frá því að ná þeim markmiðum sem þar eru sett fram. Því miður hefur það gerst hratt á fáum árum að frekar hefur sigið á ógæfuhliðina hjá okkur hvað varðar drykkju hjá ungu fólki, þá sérstaklega hvað varðar bjór og svokallaða áfenga gosdrykki.

Bjór er í dag vímugjafi unga fólksins. Unglingar eiga ekki að hafa aðgengi að bjór en tíðarandinn virðist líta svo á að bjór sé varla áfengi, áfenga gosið sé það alls ekki og því miður er aðgangur unglinga að þessum drykkjum allt of greiður. Þrátt fyrir að áfengur bjór, léttvín og þetta gos sé selt í sérverslunum Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins þar sem opinberir starfsmenn, 20 ára og eldri, afgreiða og fólk undir 20 árum á ekki að geta keypt þá er staðan þessi. Við getum því rétt ímyndað okkur hver þrýstingurinn verður á afgreiðslufólk, starfsmenn verslana, sem í dag eru að stórum hluta, sérstaklega í stórverslunum, unglingar. Menn geta reynt að ímyndað sér hvernig verður með afgreiðslu í þessum verslunum. Það þekkjum við af sölu tóbaksins, sem ekki má selja undir 18 ára, en því miður er reykingar þekktar hjá börnum alveg niður í fermingaraldur. Einhver selur og einhver kaupir og þótt við viljum bera fullt traust til fullorðins fólks, barna og unglinga, þá er staðan þessi. Leiðbeiningarnar eru þær að gera allt sem við getum til að færa hlutina í sama horf og við höfðum, ekki eins og það er í heldur eins og það var.

ÁTVR hefur breytt um sölumáta frá því að að hafa útsölustaði eingöngu í sérverslunum yfir útsölustaði sem að vísu eru afmarkaðir en eru inni í öðrum verslunum. Þetta eru útsölustaðir ÁTVR en ekki eins í sérverslunum eins og verið hefur. Þar eru starfsmenn ÁTVR. En ég vil segja fyrir mitt leyti, herra forseti, að ég hefði viljað sjá allt aðra þróun hjá ÁTVR. Ég hefði viljað sjá fleiri útsölustaði ÁTVR á þeirra eigin vegum, metnaðarfulla staði þar sem væri úrval af vínum og vínmenning og afgreiðsla í verslunum eins og við sjáum í sumum verslunum ÁTVR, þar sem farið er með vín sem gæðadrykki fremur en að selja bjór í kassavís eins og virðist sums staðar gert. Ég hefði viljað sjá meiri metnað í útsölu ÁTVR, bæði með fleiri útsölustöðum og meiri metnaði í vörutegundum og öðru slíku. Ég vil að hér á landi og sem víðast sé góð vínmenning. Ég hef ekki á móti áfengi sé það drukkið í hófi af fullorðnu fólki. Ég vil að við gerum allt til að stuðla að því að draga úr áfengisneyslu barna og unglinga og að hvetja ekki til áfengisneyslu, á léttvíni og bjór, til fullorðins fólks.

Sú aðferð sem hér er lögð til verður til ills. Við þurfum ekki að gera tilraunir á íslenskri þjóð, þetta er þekkt, þessar leiðir hafa verið farnar og áður verið slakað á reglum. Það er hægt að fara í samanburðarrannsóknir og skoða t.d. Svíþjóð þar sem útsölustöðum var breytt í ákveðnum sveitarfélögum. Þar var hægt að gera samanburðarrannsóknir. Þar sem slakað var á og vínið fór í verslanir stórjókst salan, ekki bara á bjór og léttvíni heldur einnig á sterkari drykkjum. Það að byrja að drekka bjór og léttvín sem hluta af máltíð eða að neyta þess daglega leiðir til aukinnar drykkju og neyslu sterkari drykkja. Áfengismagnið eykst og styrkleikinn einnig. Hugmyndafræði frumvarpsins sem getur verið góð á pappírnum dugir ekki þegar kemur að raunveruleikanum.

Þótt við viljum treysta fólki og einhverju okkar þyki þægilegt að grípa með sér bjórkippuna eða hvítvínsflöskuna eða hvaða áfengi sem er undir 22% þá tel ég að okkur beri að huga að heildinni og þá sérstaklega að börnum og unglingum.

Hvað varðar landsbyggðina er ég sannfærð um að ábendingar ÁTVR eru réttar. Ef þessi leið yrði einhvern tímann farin þá hefðum við ekki útsölustaði ÁTVR úti á landi líkt og er í dag. Þá munu þær verslanir lenda í samkeppni við smávöruverslanir á viðkomandi stað, þetta verður spurning um samkeppni og samkeppnisaðstöðu. Það er enginn rekstrargrundvöllur fyrir því að ÁTVR sé eingöngu með sterk vín í verslunum úti um landið. Þá erum við að tala um verri þjónustu fyrir landsbyggðina en er þó í dag og vil ég sjá hana miklu betri og metnaðarfyllri en hún þó er.

Varðandi matvöruverslanir og skilgreiningu á matvöruverslun: Hvað er matvöruverslun? Eru þetta kaupfélögin, Hagkaup og Bónus eða bensínstöðvarnar sem eru orðnar að hálfu leyti matvöruverslanir líka? Áfengi undir 22% verður þá mjög víða og útstilling á vörunni verður frekar söluhvetjandi en hitt. Það er augljóst að þrýstingurinn á að auglýsa vöruna verður meiri en er í dag. Ekki aðeins innflytjendur verða með þrýsting heldur líka smásöluaðilarnir sem taka gróða sinn og vilja þar af leiðandi fá meiri sölu. Þar með verður enn meiri þrýstingur á það en er í dag að auglýsa vöruna. Þó brjóta menn auglýsingabann á víni á hverjum einasta degi og oft á dag. Það er okkur til háborinnar skammar að geta ekki komið í veg fyrir að farið sé í kringum lögin.

Hvað varðar 20 ára aldurstakmarkið er það eitt af því sem er í leiðbeiningum til allra þjóða, að halda sem hæstu aldurstakmarki. Það er munur á 16 ára, 18 ára og 20 ára og ég tel að við eigum áfram að halda í 20 ára aldurstakmark þótt ekki sé um það fjallað í þessu frumvarpi en þetta hangir allt saman.

Hæstv. forseti. Mig langaði til aðeins að vitna í skýrslu sem heitir Áfengi, engin venjuleg neysluvara. Það er alveg rétt. Rétt eins og tóbakið er þetta engin venjuleg neysluvara. Þróunin í heiminum er sú að Evrópa er farin að skera sig úr hvað varðar aukning á sölu og neyslu áfengis. Sjúkdómarnir láta ekki á sér standa því að samfara aukinni neyslu eykst stórlega álag á heilbrigðiskerfi í Evrópu. Það gerir það líka hér á Íslandi því að áfengi hefur áhrif á alla líkamsstarfsemi og leiðir til mjög alvarlegra líkamlegra og andlegra veikinda.

Í þessari skýrslu, sem vitnað er í umsögn frá Lýðheilsustöð um samsvarandi frumvarp frá apríl 2005, segir með vísan til rannsókna sem gerðar hafa verið, með leyfi hæstv. forseta:

„Almennt séð er það mjög áhrifamikið ráð að stjórna aðgengi og stýra notkun áfengis. Þar sem þessi aðferð er víðfeðm og kostnaðarlítil er hægt að gera sér vonir um mikinn árangur við að draga úr skaða af völdum áfengis. Flestar aðgerðir gegn ölvunarakstri fengu einnig góða einkunn fyrir árangur. Þessar aðferðir eru ekki eingöngu vel staðfestar með rannsóknum heldur virðast þær gera gagn í flestum löndum en eru jafnframt frekar einfaldar í framkvæmd og auðvelt að viðhalda þeim.“

Síðar eru talin upp þau atriði sem bestum árangri skila, með leyfi forseta:

„Eftirfarandi tíu atriði standa upp úr þegar móta skal áfengisstefnu:

aldurstakmarkanir við áfengiskaup,

ríkiseinkasala áfengis,

takmarkanir á sölutímum og söludögum,

takmarkaður fjöldi sölustaða,

áfengisskattar,

lög um leyfilegt magn áfengis í blóði ökumanna,

eftirlit með ölvunarakstri,

ökuleyfissvipting við ölvunarakstri,

ökuleyfi með skertum réttindum handa nýjum ökumönnum,

stutt úrræði handa fólki sem drekkur mikið og er í áhættuhópi.“

Í beinu framhaldi segir, með leyfi forseta:

„Áfengisstefnan getur verið virk bæði innan sveitarfélaga og í landinu öllu. Á hvoru sviðinu sem er má beina stefnunni að almenningi í samfélaginu, að ofneytendum sem hætt er við að leiðist út í áfengissýki og að þeim sem þegar hafa þróað áfengissýki. Áfengisstefna getur ekki staðið ein og sér og óháð heldur þarf hún að styðjast við önnur úrræði. Ólík stuðningsráð og úrræði, sem vinna að sameiginlegum markmiðum, eru líklegri til að skila árangri en eitt eða fá úrræði. Til að fá sem mest út úr áfengisstefnunni þarf að nota alhliða íhlutun eða úrræði til að ná sem best utan um málefnið.

Þetta þýðir að nú eigum við meiri möguleika en nokkru sinni fyrr á að setja fram áfengisstefnu sem þjónar samfélaginu og byggja þá stefnu á traustum rannsóknum. Nú er stefnumótun í þessum málaflokki of sjaldan byggð á niðurstöðum rannsókna og of oft skortir á að stefnumótun bæti upp vanþekkingu og úrræði sem ekki skila árangri. Vegna þess að áfengi er engin venjuleg neysluvara á almenningur rétt á að áfengisstefna sé vel ígrunduð og unnin af vandvirkni.“

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um málið. Ég tel að við þurfum að hafa heildarsýn á málið. Okkur er vel kunnugt um vandamál SÁÁ og rekstur stöðvarinnar á Vogi. Á borð okkar bæði í fjárlaganefnd og inn á Alþingi hafa komið athugasemdir um vandamál sem tengjast ölvunarakstri. Stórslys í umferðinni, hraðakstur, ofbeldi o.fl. á rætur sínar að rekja til ofneyslu áfengis. Heilbrigðiskerfi okkar er íþyngt af bæði sjúkdómum og afleiðingum slysa. Ég tel því að þau fáu skref sem við þurfum að ganga til að komast í sérverslanir ÁTVR til að kaupa vín eigi ekki að verða til þess að gera þurfi tilraunir á því hvort Íslendingum sé treystandi til að vera ábyrgir í áfengiskaupum. Ég held að við séum ósköp venjuleg þjóð, eins og aðrir menn í Evrópu og á Norðurlöndunum. Við eigum að læra af reynslu þeirra og taka mið af þeim ábendingum sem við höfum fengið.