133. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

26. mál
[17:54]
Hlusta

Kjartan Ólafsson (S):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um ýmis lög er varða áfengi og tóbak. Það eru margar hliðar á því máli og í umræðunni sem hefur staðið yfir um nokkurn tíma hafa ýmsir efnispunktar komið fram, t.d. prósentan sem lögin eiga að ná yfir, 22% áfengismagn. Það hefur verið rætt um einkasölu eða frjálsa verslun með vöruna, framboð og margt fleira, svo sem auglýsingar, aldur o.s.frv.

Þessir þættir eru allir mjög mismunandi eftir löndum. Ef við berum okkur saman við nágrannalönd okkar má segja að í Danmörku og Þýskalandi sé mikið frjálsræði hvað þessa þætti varðar. Svo eigum við nágrannalönd eins og t.d. Noreg, Svíþjóð og Kanada þar sem málin eru með öðrum hætti.

Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson nefndi í upphafsræðu sinni að þetta væri hógvært skref til hagsbóta og til framfara. En það er nú þannig að þegar fram á veginn skal halda kann að vera skynsamlegt að taka hógvær skref en það getur líka verið skynsamlegt að taka skrefin kröftuglega og það er einmitt það sem mig langar að fjalla aðeins um hvað þetta frumvarp varðar. Ef skrefið er of hógvært á maður á hættu að detta í bæjarlækinn þannig að þá er kannski betra að taka skrefið svolítið rösklegar. (Gripið fram í.)

Hv. þingmaður fór yfir söguna og það er alveg rétt sem hann nefndi, bannárin og allt sem þeim fylgdi með heimabruggi og tilheyrandi og eru til af því margar góðar sögur. Mig langar einmitt að rekja aðeins söguna, frú forseti, til að menn átti sig á því sem er kannski svolítið í nútímanum en lengra frá bannárunum. Þannig háttaði til fyrir ekki svo mörgum árum að Áfengisverslunin var með nokkra útsölustaði í Reykjavík og nánast örfáa úti á landi, mjög fáa. Hvað mitt kjördæmi áhrærir og á Suðurlandi var enginn útsölustaður og það var auðvitað ekki góð þjónusta, alls ekki, hvorki fyrir íbúana eða ferðafólk. Það er einmitt það sem mig langar svolítið að fara inn á í þessari umræðu, það er vinkill ferðaþjónustunnar, bæði innlendra og erlendra ferðamanna.

Sem sé, áður en útsölustaðir urðu til var þetta mjög erfitt. Menn voru að fá áfengi sent með pósti, það voru flutningabílar og það voru vinir og kunningjar og ýmsar aðferðir sem menn höfðu til að útvega sér þennan varning. Nú hins vegar hin síðari ár hefur ÁTVR stórbætt bæði þjónustu og framboð, með rýmri opnunartíma og miklu fleiri útsölustöðum. Af því að hv. þingmaður nefndi í framsöguræðu sinni nokkra staði á Suðurlandi þá eru höfuðstöðvar áfengisverslunarinnar á Selfossi og síðan eru útsölustaðir í Þorlákshöfn, í Hveragerði og svo austur um, í Rangárvallasýslu og Vík og á Kirkjubæjarklaustri eins og hv. flutningsmaður nefndi. Þjónustan og aðgengið fyrir heimamenn, fyrir ferðaaðila, bæði innlenda og erlenda, er orðin tiltölulega góð sem er auðvitað mjög eðlilegt og samfara því sem er að gerast í samfélaginu.

Það sem mig langar að spyrja um og reyna að fá svör við er eftirfarandi: Ég óttast svolítið, frú forseti, að þegar drykkir sem eru yfir 22% verða eftir í áfengisverslunum ÁTVR, en þeir drykkir sem eru léttari eða veikari í áfengismagni og verða seldir í verslunum, þá muni ríkisverslunin ekki geta haldið úti þessum útsölustöðum á landsbyggðinni, það verði alls ekki arðbært. Ég tel að það sé alls ekki eðlilegt að það verði haldið uppi útsölustöðum sem ekki standa undir sér. Þá stöndum við uppi með það að þjónustan, aðgengið verður verra en það er núna. Það hefur verið mjög gott eins og ég hef komið inn á, á landsbyggðinni undangengin ár og þá er spurningin þessi: Er ekki nær að taka skrefið allt og heimila þeim verslunum sem vilja að versla með allar tegundir áfengis og sleppa ákvæðinu í frumvarpinu um 22% og hoppa bara yfir bæjarlækinn í einu skrefi? Þá yrði a.m.k. aðgengi og framboð miklu rýmra og það yrði með sterkum drykkjum. Hv. þm. Mörður Árnason nefndi áðan ýmsa drykki sem ég kann nú ekki að nefna alla aftur sem eru sterkari en 22%. Þeir drykkir mundu þá auðvitað fara inn í verslanirnar og þá yrði aðgengi almennings, heimamanna, ferðamanna, erlendra sem innlendra, mjög hliðstætt því sem er núna.

Þess vegna held ég að við þyrftum að fá nokkuð góða úttekt á því hvað ÁTVR treystir sér til að hafa mörg útibú opin á landsbyggðinni ef þeir missa þá veltu og þann ábata sem er af sterku drykkjunum. Ég óttast að þeir muni loka verslunum sínum og þá er betra að fara ekki af stað nema því aðeins að við tökum skrefið til fulls og hoppum alveg yfir í þessu máli.

Þetta er svona í stuttu og einföldu máli það sem ég vildi koma á framfæri í ræðu minni og vildi gjarnan að kæmi fram í málinu þegar þetta frumvarp er enn og aftur lagt fram og að þessi hugmyndafræði mætti verða til þess að málið yrði skoðað frá þessum vinkli í nefndinni.