133. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

26. mál
[18:03]
Hlusta

Flm. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegur forseti. Ég ætlaði bara að segja nokkur orð í lokin. Ég vil þakka hv. þingmönnum fyrir ágætisumræðu. Það er af sem áður var. Það hefur verið allt að því einmanalegt hér í salnum þegar ég hef flutt þetta frumvarp fram til þessa. Ég hef verið hér með sjálfum mér og starfsmanni þingsins og forseta. (Gripið fram í.) En hver svo sem ástæðan er þá var þetta í það minnsta mun fjörlegra og bara prýðileg umræða. Það er gott og eðlilegt í málum eins og þessum sem og öðrum að menn skiptist á skoðunum og skoði alla þætti. Mér finnst hins vegar ekkert hafa komið fram í þessum umræðum sem hefur gefið flutningsmönnum tilefni til að taka u-beygju í þessu máli.

Það er auðvitað ýmislegt í þessu þó svo að menn hafi rætt þetta mjög mikið. Hv. þm. Mörður Árnason spurði af hverju hlutirnir væru með einum hætti en ekki öðrum. Það var að sjálfsögðu ákveðin málamiðlun. Það eru 14 hv. þingmenn á bak við þessa tillögu. Það var búið að ræða þetta mjög mikið og ég tel að vandað hafi verið til verksins. Ég vísa t.d. í 10. gr. Menn reyndu að halda þar fyrir utan ýmissi verslun þar sem erfitt yrði að framfylgja reglunum, reglum sem okkur finnst sjálfsagt að viðhafa í þessu. Mikið vald er að vísu flutt til sveitarfélaganna um reglur hvað varðar verslanir í hverju sveitarfélagi. Ég held að það sé eðlilegt sjónarmið. Ég tel eðlilegt að íbúar í hverju sveitarfélagi hafi um það að segja hvernig þessum málum er háttað.

Á sama tíma er gert ráð fyrir að afgreiðslutími skuli ekki vera lengur en til átta á kvöldin og það er í samræmi við það sem verið hefur hjá ÁTVR. Að vísu held ég að einhvern tíma hafi ÁTVR haft opið til níu í einni verslun hér á höfuðborgarsvæðinu. Það kann þó að vera að mig misminni. Á sama hátt er hér gert ráð fyrir að starfsmenn sem afgreiða áfengi megi ekki vera yngri en 20 ára. Ég held að það sé sjálfsögð varúðarráðstöfun. Ef áhugi er fyrir því geta menn með lögum, og ef við göngum þannig frá varðandi reglugerð og heimildir sveitarfélaganna, sett strangari skilyrði um þessa hluti.

Ég hef aldrei gert lítið úr þeim vanda sem fylgir misnotkun áfengis. Ég held að það hvarfli ekki að nokkrum einasta manni að gera það. Það eru hins vegar ýmsar hættur í okkar þjóðfélagi. Svo öllu sé til haga haldið þá benda menn réttilega á að áfengi getur verið hættulegt, en samt sem áður ku rauðvín vera hollt. Ég held að það sé óumdeilt. Ég er enginn sérfræðingur á því sviði, ég hef bara svo oft séð fréttir um það. Það liggur fyrir ef ég skil það rétt. En ég er ekki að hvetja einn né neinn til þess að drekka meira áfengi, það er ekki með neinum hætti ætlun flutningsmanna. Það er hins vegar eðlilegt að hafa reglur um hvernig menn höndla þessa vöru. Það er ekkert óeðlilegt að við berum okkur saman við lönd í nágrenninu, lönd sem Íslendingar hafa búið í.

Ég hef aldrei notað skoðanakannanir sem rök og geri það heldur ekki núna — mér finnst eðlilegra að menn noti önnur og málefnalegri rök fyrir sínu máli. Það vekur þó athygli að þeim mun yngra sem fólk er því hlynntara er það þessari leið. Ég held að ein ástæðan fyrir því sé sú að yngra fólkið hefur kynnst þessu í öðrum löndum. Það er vant þessu frá öðrum löndum. Við höfum að sjálfsögðu breytt þessum hlutum mjög mikið hér, eins og hefur verið nefnt. Í rauninni hefur sala á þessari vöru breyst stórlega á síðasta áratug og áratugum. Við vorum með alveg gríðarleg höft hvað þetta varðar. Hv. þm. Kjartan Ólafsson lýsti því hvernig þetta var fyrir nokkrum árum þegar þrjár til fjórar verslanir voru í Reykjavík og engin á Suðurlandi, ekki ein á Suðurlandi. Því miður var það nú ekki svo þegar staðan var þannig að við værum laus við það böl sem áfengisvandanum fylgdi. Í rauninni má færa rök fyrir því að margt hafi færst til betri vegar eftir að menn fóru að setja þessa verslun í nútímalegra horf.

Hv. þm. Þuríður Backman vísaði hér á Svíþjóð og nefndi samanburðarrannsóknir — sem ég þekki nú ekki — milli sveitarfélaga. Menn eru svo sannarlega með ríkiseinokunarsölu þar og kom nú upp frægt dæmi. Ég held að það hafi leitt til handtöku og fangelsunar ýmissa manna — það nær yfir sænsku ríkiseinokunarsöluna sem var einmitt að misnota aðstöðu sína. En það er svo sem engin ástæða til þess að fara yfir þá sögu hér.

Virðulegi forseti. Ég fagna þessari góðu umræðu. Það er gott að menn takist á um þetta. Ég efaðist ekkert um að svo yrði. Það er alveg rétt að aðgát skal höfð í þessu. Við þurfum svo sem að hafa aðgát í mörgu þegar kemur að heilsu þjóðarinnar og vanda okkur í forvörnum á þessu sviði svo og mörgu öðru. Það er hætta hvað varðar áfengis- og vímuefnanotkun. Það er líka hætta hvað varðar hreyfingarleysi og offitu. Við eigum að taka þessa hluti alvarlega og reyna að vinna gegn með öllum þeim ráðum sem við teljum eðlileg. Reyndar er það svo að hreyfingarleysi og offita er orðið stærsta heilbrigðisvandamál heimsins, las ég einhvers staðar um daginn. Ég las líka um það að af þessum fimm milljörðum sem búa á jörðinni sé einn milljarður of þungur en 800 milljónir búa við þá skelfilegu stöðu að hafa of lítið að borða.

Það tengist nú ekki þessu máli beint en það er nú ánægjulegt að vera kominn hér til þess að spjalla um þetta. Eftir því sem ég best veit þá erum við hvort eð er búin að missa af leiknum þannig að við höfum ekkert annað að gera en fara enn betur yfir þetta. Ég þakka hv. þingmönnum fyrir góða umræðu um þetta mál. (Gripið fram í.)