133. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

26. mál
[18:14]
Hlusta

Flm. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er enn ekki búinn að átta mig á því hvort hv. þm. Mörður Árnason er fylgjandi þessu máli eða gegn því, eða hvernig það mál stendur. Ég er nokkuð spenntur. Ég fylgist grannt með ræðum hans og það virðist vera nokkur sveifla í því. Kannski getur einhver annar, sem þekkir þau mál betur, skýrt það út fyrir mér hver skoðun hv. þingmanns er hvað þetta varðar. En honum ber ekkert að upplýsa það frekar en hann vill hvort hann er fylgjandi frumvarpinu eða ekki.

Ég held að vísu að í frumvarpinu komi fram að flutningsmenn telja að aðgát skuli höfð. Ég fór yfir 10. gr. sérstaklega þar sem farið er yfir það. Ég veit ekki hvort það er réttmætt að halda því fram að flutningsmenn hafi talað með öðrum hætti. Ég get einungis vísað í fyrri ræður mínar í tengslum við þessi mál. Ég hef aldrei nokkurn tíma gert lítið úr áfengisvandanum og mun aldrei gera.

Þessar bollaleggingar um að leggja niður ÁTVR eða ekki, ég átta mig ekkert á þeim. Mér heyrist að hv. þm. Merði Árnasyni sé mjög umhugað um að halda í þá ríkisstofnun. Þá er það bara allt í lagi, ég geri engar athugasemdir við það. Það er ekki gert ráð fyrir að leggja niður ÁTVR með þessu frumvarpi. Mér finnst nú stóra málið í þessu að við færum viðskiptahættina í átt til nútímans. Ég man ekki til þess að neinn sem hefur tekið þátt í þessari umræðu hafi talað um að léttvín og bjór væru sérstaklega gott áfengi en aðrar tegundir slæmt áfengi. Ég held að enginn hafi farið út í slíka flokkun. En menn hafa verið að stíga smærri skref í þessum málum og það er það sem menn leggja til hér.