133. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2007.

aukin þjónusta við ungbarnafjölskyldur.

73. mál
[18:34]
Hlusta

Valdimar L. Friðriksson (Fl):

Frú forseti. Við erum að ræða hér tillögu til þingsályktunar um aukna þjónustu við ungbarnafjölskyldur sem ég er meðflutningsmaður að. Hér er verið að tala um, eins og komið hefur nokkuð skýrt fram í máli hv. framsögumanns, 1. flutningsmanns, hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, að kanna sérstaklega kostnað og möguleika á að lengja fæðingarorlofið í áföngum um sex mánuði og kanna möguleikana á að börn komist á leikskóla við fimmtán mánaða aldur.

Fæðingarorlofið hefur þótt mjög jákvætt og notið mikils lofs, bæði hér á hinu háa Alþingi og úti í þjóðfélaginu, en það þarf að sjálfsögðu að endurskoða í þeim tilgangi að bæta það.

Eins og kemur fram í greinargerð er staðan þannig í dag að margir foreldrar eiga í vandræðum með að brúa bilið í dagvistun barna sinna þegar þau fara aftur út á vinnumarkaðinn að loknu fæðingarorlofi. Þetta er því spurning um að bæta hag beggja aðila, heimilanna og vinnumarkaðarins. Þetta er ekki síst mikið jafnréttismál þar sem líklegt er að vandamálið við að brúa þetta bil milli fæðingarorlofs og dagvistunar komi frekar niður á móður en föður.

Það er mat flutningsmanna að huga eigi núna strax að framtíðarskipan þessara mála og þá að sjálfsögðu í samráði milli ríkis og sveitarfélaga. Þar eru menn að undirbúa framtíðina til að koma til móts við þarfir ungbarnafjölskyldna.

Eins og skýrt hefur komið fram oft áður var stigið mjög stórt skref í málefnum fjölskyldunnar þegar fæðingarorlofslögin voru tekin upp, þá ekki síður til að auka jafnrétti kynjanna. Það hefur tekist eins og alþjóð veit að auka afskipti feðra af uppeldi barna og þessi fæðingarorlofslög eiga stóran þátt í því.

Nokkur sveitarfélög eru farin að huga að þessum málum eins og þingsályktunartillagan segir til um. Það má segja að þau séu jafnvel komin fram úr ríkinu. Ég tel að tillagan tryggi meira valfrelsi hjá báðum foreldrum, bæði varðandi umönnun og vinnumarkaðinn. Það væri æskilegt að félagsmálanefnd og ráðherra mundu skoða þessi mál betur áður en einstök sveitarfélög rjúka fram úr ríkinu. Ég held að þessi tillaga hljóti auðveldlega að fá brautargengi bæði í félagsmálanefnd og hér í þinginu, og óska þess.