133. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2007.

heildararðsemi stóriðju- og stórvirkjanaframkvæmda fyrir þjóðarbúið.

19. mál
[18:54]
Hlusta

Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er ansi athyglisverð þingsályktunartillaga sem hér er borin fram. Kannski væri ástæða til að fara ítarlegar yfir hana en í stuttu andsvari. Allt það sem viðkemur þessari tillögu er mjög hnattrænt. Ég vil m.a. benda á umhverfisþáttinn losun koltvísýrings. Ég minni þar á fund sem við hv. þingmaður áttum á Norðurlandaráðsþingi fyrir stuttu þar sem Norðurlöndin fóru yfir koltvísýringsmál sín, þar sem fyrst og fremst um er að ræða brennslu á olíu, kolum og gasi. Nú ræða menn helst um kjarnorku.

Mig hefði langað að koma inn á úttektina sem hér er talað um. En hún þyrfti að ná allt til ársins þegar ákveðið var að byggja Búrfellsvirkjun og Straumsvíkurverksmiðjuna. Ég vildi spyrja hv. þingmann og flutningsmann, hv. þm. Steingrím J. Sigfússon, hvort ekki væri eðlilegt að úttektin næði til þess tíma er Alþýðubandalagið sáluga sem barðist sem mest á móti byggingu Búrfellsvirkjunar sá helst þau úrræði í atvinnumálum Íslendinga að við færum að sjóða niður síld í dósum og senda til Rússlands.

Það væri gaman að þetta yrði nú borið saman og sjá hvort þjóðinni hefði vegnað betur með þann iðnað fremur en að fara út í álbræðslu og byggingu Búrfellsvirkjunar. Það er löngu vitað að við hefðum aldrei getað á þeim tíma byggt þá virkjun nema álverksmiðjan í Straumsvík hefði komið til.

Þá langar mig að benda þingmanninum á það, sem kom fram reyndar í hans málflutningi, að uppi eru áform og athuganir meðal fleiri (Forseti hringir.) aðila á að byggja áltæknigarð í Þorlákshöfn (Forseti hringir.) þar sem fyrst og fremst yrði um úrvinnslu á áli að ræða.