133. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2007.

heildararðsemi stóriðju- og stórvirkjanaframkvæmda fyrir þjóðarbúið.

19. mál
[19:03]
Hlusta

Valdimar L. Friðriksson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Við erum að ræða hér ágæta tillögu til þingsályktunar frá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði. Ég get ekki séð tillögunni allt til foráttu eins og sá eini þingmaður sjálfstæðismanna sem hefur séð ástæðu til að taka þátt í umræðunni.

Í tillögunni segir, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta gera vandað, óháð og gagnsætt þjóðhagslegt mat á arðsemi og heildaráhrifum þess á efnahagslegan stöðugleika og framvindu íslensks þjóðarbúskapar að ráðist verði í frekari stóriðju- og virkjanafjárfestingar.“

Ég held að miðað við síðustu missiri hljóti svona athugun að teljast ósköp eðlileg. Það er engin launung að farið hefur verið offari í þessum málum, í að setja á stofn stórar álverksmiðjur. Menn velta því fyrir sér hver ráði í raun förinni og hraðanum. Hvar er hinn raunverulegi byrjunarreitur? Er hann á Alþingi, hjá ráðherrum, hjá Landsvirkjun eða erlendum fyrirtækjum?

Þar með er ekki sagt að ég sé á móti framkvæmdum eins og t.d. á Reyðarfirði. Hins vegar erum við í Frjálslynda flokknum sammála um að tími sé kominn til að menn fari sér hægar og skoði vangaveltur um stóriðju með tilliti til þenslu og, eins og hér hefur komið fram, með tilliti til arðsemi fyrir þjóðina alla en ekki tiltekna einstaklinga eða fyrirtæki.

Jafnframt þarf að skoða þetta út frá skynsemi og umhverfisaðstæðum. Öllum ætti að vera ljóst að á síðustu missirum hafa komið fram auknar kröfur um að líta meira til umhverfisins og náttúrunnar þegar farið er út í stórar virkjanir og byggingar á orkufrekum fyrirtækjum.

Ég tel þessa þingsályktunartillögu mjög eðlilega, að hér fari fram vandað og óháð mat á þjóðhagslegri hagkvæmni áður en farið verði út í frekari stóriðju- og virkjunarfjárfestingar.