133. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2007.

heildararðsemi stóriðju- og stórvirkjanaframkvæmda fyrir þjóðarbúið.

19. mál
[19:06]
Hlusta

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir undirtektirnar og ræðu hans. Ég vildi bæta því við frá mínu brjósti, sem ég kom ekki inn á í ræðu minni, að ég held að tíðarandinn í samfélaginu sé orðinn mjög breyttur í þessum efnum. Ég er fullviss um að ef almenningur í landinu fengi að láta í ljós álit sitt, t.d. á einfaldri tillögu af þessu tagi, hvort ekki væri a.m.k. rétt að gera þetta áður en menn héldu lengra áfram, þá mundu 80–90% þjóðarinnar mundi segja: jú, að sjálfsögðu. Flestir mundu náttúrlega spyrja í forundran: Hefur þetta virkilega ekki verið gert? En það er veruleikinn.

Ég efast ekkert um það að úti í samfélaginu er mjög almennur stuðningur við að a.m.k. þetta sé gert áður en lengra er haldið. Efasemdir manna hafa um þessa stefnu hafa vaxið mjög mikið. Það er nánast hægt að kalla það mikla vitundarvakningu með þjóðinni. Kannski hafa umhverfisáhrifin, þær myndir sem hafa birst þjóðinni af þeim fórnum sem þar hafa verið færðar eða stendur til að færa, haft mest áhrif.

Ég held þó að fleiri og fleiri séu hugsi yfir þessu orðið vegna áhrifanna almennt á þjóðarbúskapinn og efnahagslífið. Ég minni t.d. á að einn af bankastjórum stærstu bankanna sagði nákvæmlega það í viðtali fyrir fáeinum dögum, kannski viku síðan, að sennilega væri hyggilegt að staldra við í þessum stóriðjuframkvæmdum og skoða hvort það sé rétt tímasetning að fara út í það núna.

Það er því margt í þessu sem væri þarft að skoða. Ef niðurstaðan, eins og OECD bendir sérstaklega á, yrði að leyfa frekari fjárfestingar af þessu tagi á komandi árum þá væri tímasetningin a.m.k. vönduð, reynt að finna tímabil í hagsveiflunni sem geri að verkum að viðráðanlegt sé (Forseti hringir.) að ráðast í framkvæmdir án þess að allt fari um koll.